Rauði krossinn kynntur í grunnskólum

24. apr. 2007

Öllum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu býðst að fá kynningu á starfi Rauða krossins fyrir nemendur 8. bekkja. Í vetur hafa skólarnir verið duglegir að nýta sér boðið og flestir skólar fengið kynningu fyrir sína nemendur.

„Það skemmtilegasta við þessar kynningar er að krakkarnir verða meðvitaðir um starf Rauða krossins og það kemur mörgum á óvart að það séu verkefni á vegum deildanna sem þessi aldurshópur getur tekið þátt í,” segir Ingunn Ásta Sigmundsdóttir, verkefnastjóri sjálfboðamiðstöðvar Kópavogsdeildar. „Í kjölfar kynninganna í Kópavogi hafa nemendur gefið kost á sér í sjálfboðin störf og ungmennastarf Kópavogsdeildar sem ber heitið Eldhugar,” segir Ingunn Ásta.

Kynningunum er hagað þannig að starfsmenn deildanna og svæðisfulltrúi Rauða krossins á höfuðborgarsvæði fara saman í skólabekkina, sýna stutt kynningarmyndband um starf félagsins og fjalla um helstu verkefni Rauða krossins hér heima og erlendis. Oft skapast líflegar og skemmtilegar umræður um störf sjálfboðaliða og flestir nemendur eru mjög áhugasamir um félagið.