Starfið á árinu 2006

14. maí 2007

Á höfuðborgarsvæði eru 6 deildir: Álftanesdeild, Garðabæjardeild, Hafnarfjarðardeild, Kjósarsýsludeild, Kópavogsdeild og Reykjavíkurdeild. Í svæðisráði eru fulltrúar allra deilda auk fulltrúa URKÍ sem situr fundi með málfrelsi og tillögurétt. Formaður svæðisráðs er Jóhannes Rúnar Jóhannsson, fulltrúi Hafnarfjarðardeildar. Jóhann Gunnar Gunnarsson, Reykjavíkurdeild, lét af formennsku svæðisráðs á svæðisfundi sem haldinn var 10. október. Svæðisráð fundar fyrsta miðvikudag hvers mánaðar. Svæðisskrifstofa Rauða kross Íslands á höfuðborgarsvæði er staðsett í húsnæði Hafnarfjarðardeildar í Strandgötu 24.

Fataflokkun
Deildir á svæðinu reka í sameiningu Fataflokkun Rauða krossins. Svæðisráð myndar stjórn hennar. Samstarf er við endurvinnslustöðvar Sorpu um söfnun fatnaðar en þar eru fatasöfnunargámar merktir Rauða krossinum. Einnig nýtur verkefnið mikils velvilja hjá stóru flutningafyrirtækjunum, Samskip, Landflutningum og Flytjanda sem hafa flutt föt endurgjaldslaust. Alls voru seld 985 tonn af fatnaði til viðskiptavina í Hollandi, Þýskalandi og Lettlandi sem er örlítil lækkun frá fyrra ári. Úthlutun innanlands var um níu tonn og nutu um 1900 einstaklingar góðs af henni. Sem fyrr eru reknar verslanir með notuð föt á Laugavegi 12 í Reykjavík og Strandgötu 24 í Hafnarfirði. Methagnaður var af rekstri Fataflokkunar en hann nam 8,1 milljón fyrir úthlutun í Hjálparsjóð og voru sex milljónir afhentar Hjálparsjóði Rauða kross Íslands í árslok. Fataflokkun er eitt stærsta sjálfboðaliðaverkefni Rauða kross Íslands og alls komu um 130 sjálfboðaliðar að því og unnu 11.260 vinnustundir.

Fræðsla í skóla
Líkt og undanfarin ár bjóða deildir á höfuðborgarsvæði grunnskólum á svæðinu upp á fræðslu fyrir 8. bekki. Svæðisfulltrúi og starfsmenn deilda sjá um hana í sameiningu. Lögð er áhersla á að fræða nemendur um mannúð og hlutleysi, verkefni Rauða krossins á stríðs- og friðartímum auk þess sem verkefni viðkomandi deildar eru kynnt. Flestir grunnskólar á svæðinu nýttu sér þessa fræðslu.

Sumarbúðir og ungmennamál
Ákvörðun var tekin um að hætta rekstri sumarbúða í Þórsmörk og sumarnámskeiðanna Mannúð og menning. Ástæðan var breyttar áherslur í innanlandsstarfi Rauða krossins og svæðissamstarfinu. Þess í stað var ákveðið að auka samstarf við Rauða kross deildir á Norðurlandi um sumarbúðir á Löngumýri og í Stykkishólmi, enda koma að jafnaði yfir 60% þátttakenda á þær búðir frá höfuðborgarsvæðinu. Einnig var ákveðið að efla samvinnu deilda á höfuðborgarsvæðinu um ungmennamál. Til að mynda greiddi svæðissjóður kostnað vegna vorferðar ungmennahópa Rauða kross deilda á uppstigningaRdag og styrkti hóp ungmenna sem tók þátt í FACE Evrópukeppni Rauða krossins í skyndihjálp á Ítalíu.

Athvörfin og málefni geðfatlaðra
Svæðasamstarfið stendur reglulega fyrir opnum fræðslufundum um geðheilbrigðismál. Það eru einkum sjálfboðaliðar athvarfanna þriggja, Vinjar, Lækjar og Dvalar sem nýta sér þá. Þangað er boðið gestum, starfsmönnum og sjálfboðaliðum athvarfanna auk öllu áhugafólki um geðheilbrigðismál.

Svæðissamstarfið stóð að tveimur námskeiðum fyrir aðstandendur geðfatlaðra á vormánuðum í samstarfi við landskrifstofu.

Fjölsmiðjan, verkþjálfunar- og framleiðslusetur
Formlegu samstarfi Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæði við Fjölsmiðjuna lauk á árinu. Deildirnar eiga eftir sem áður fulltrúa í stjórn Fjölsmiðjunnar. Þeir eru Ólafur Reimar Gunnarsson, Garðabæjardeild og varamaður hans er Reynir Guðsteinsson, Kópavogsdeild. Nánar er fjallað um starf Fjölsmiðjunnar á vefsíðu hennar, fjolsmidjan.is

Neyðarvarnir
Árið 2005 undirrituðu Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu samstarfssamning til fimm ára um sameiginlega neyðarnefnd og var árið því fyrsta heila starfsár hennar. Helstu verkefni nefndarinnar voru stór fjöldahjálparæfing í janúar, stofnun sérstaks viðbragðshóps vegna áfalla utan almannavarnaástands, fjöldahjálparstjóranámskeið og fjölsótt fræðslukvöld fyrir neyðarvarnafólk á svæðinu. Talsverð vinna fór í gerð verklags vegna neyðaraðstoðar utan almannavarnaástands og hefur það hlotið formlegt samþykki lögreglu höfuðborgarsvæðisins og slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Neyðarnefndinni bauðst í lok árs að útnefna áheyrnarfulltrúa í almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins. Fyrir hafði hún fastan fulltrúa í aðgerðastjórn almannavarna.

Útköll voru þrjú á árinu: Tvö þeirra voru vegna hættuástands á Keflavíkurflugvelli og eitt vegna bruna í íbúðarblokk í Breiðholti.