Afhending Reiðhjólahjálma hjá Garðabæjardeild Rauða kross Íslands

29. maí 2007

Þann 22. maí s.l. var margt um manninn í húsnæði Garðabæjardeildar Rauða kross Íslands en tilefnið var afhending reiðhjólahjálma til allra sex ára barna í Garðabæ.

Garðabæjardeild hefur undanfarin ár gefið öllum börnum sem verða sex ára á árinu reiðhjólahjálma og var öllum börnum í þessum árgangi sent bréf og boðið að mæta á skrifstofu deildarinnar til að taka við hjálmum. Mikill áhugi var hjá börnunum og voru sum hver mætt vel fyrir auglýstan afhendingartíma. Sögðu nokkrir foreldrar frá því að börn þeirra hefðu beðið með eftirvæntingu eftir bréfi frá deildinni þar sem þau mundu eftir því að eldri systkini höfðu fengið afhentan hjálm við þessi tímamót.

Þeir sem ekki sáu sér fært um að mæta þennan dag geta enn sótt sína hjálma á opnunartíma skrifstofunnar, þriðjudaga og fimmtudaga milli kl. 11 og 13 eða haft samband í s. 565-9494.