Lifandi bókasafn

31. maí 2007

Á Þjóðahátíð Alþjóðahússins munu félagar í Ungmennahreyfingu Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins standa fyrir lifandi bókasafni. En hvað er lifandi bókasafn? Lifandi bókasafn er námvæmlega eins og venjulegt bókasafn þar sem lesendur koma og fá lánaða bók í takmarkaðan tíma. það er aðeins einn munur á því bækurnar í lifandi bóksafni eru fólk og bækurnar og lesendur eiga í persónulegum samskiptum.

Markmið lifandi bókasafns er að vinna gegn fordómum og eru bækurnar fulltrúar ólíkra hópa í samfélaginu, hópa sem oft mæta fordómum, búa við misrétti og / eða félagslega einangrun.

Í eitt og hálft ár hafa félagar Ungmennahreyfingarinnar unnið að verkefnum sem miða að því að auka skilning manna í millum, virðingu fyrir ólíku fólki og koma þannig í veg fyrir fordóma og mismunun í íslensku samfélagi. Unnið hefur verið undir kjörorðunum byggjum betra samfélag og passar lifandi bókasafn því einkar vel við það sem krakkarnir hafa unnið að hingað til.

Lifandi bókasafn verður á Þjóðahátíð Alþjóðahússins í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði laugardaginn 2. júní frá 12 til 18. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér verkefnið nánar eru hvattir til að mæta í Hafnarfjörðinn þann 2. júní og taka sér bók að láni.