10. bekkingar í Hafnarfirði læra skyndihjálp

13. júl. 2007

Við lok skólaársins lærðu nemendur í 10. bekk Áslandsskóla, Lækjarskóla, Setbergsskóla, Hvaleyrarskóla og Víðistaðaskóla í Hafnarfirði skyndihjálp. Nemendurnir sóttu 16 kennslustunda námskeið í almennri skyndihjálp og öðluðust því víðtæka þekkingu á hvernig bregðast á við komi þau t.d. á slysstað. 

Stefna grunnskólanna í Hafnarfirði og Hafnarfjarðarbæjar að bjóða öllum nemendum uppá þessi námskeið hefur verið skólunum og bæjarfélaginu til mikils sóma. Kunnátta í skyndihjálp getur komið að góðum notum og hefur það marg sannað sig að almennir borgarar, sem oft mæta fyrstir á slysstað, geta veitt mikilvæga aðstoð áður en björgunarlið kemur á staðinn.

Námskeiðið sem 10. bekkingar sóttu veitir þeim ekki einungis haldbæra kunnáttu í skyndihjálp heldur geta þau jafnframt fengið námskeiðið metið til eininga í framhaldsskólum. Leiðbeinendur á námskeiðunum hafa allir mikla reynslu af bæði kennslu skyndihjálpar og vinnu sem sjúkraflutninga- og slökkviliðsmenn. Að sögn Magnúsar Jóns Kristóferssonar stöðvarstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sem annast hefur skyndihjálparkennslu fyrir Hafnarfjarðardeild Rauða krossins um árabil, er þessi kennsla mjög mikilvæg og margt sem kakkarnir læra. Nefndi hann að skyndihjálparkennsla hafi lengi verið mjög almenn í Hafnarfirði og vonaðist hann til að bærinn myndi áfram standa að þessari fræðslu af sama myndugleik og hingað til.

Í stefnu Rauða kross Íslands koma fram markmið um að félagið sé ávallt leiðandi í útbreiðslu skyndihjálpar á Íslandi. Rauði krossinn sér um útgáfu á námsefni í skyndihjálp, menntun skyndihjálparleiðbeinenda og sölu á námskeiðum jafnt til fyrirtækja og stofnana.