Hendum fordómunum á Menningarnótt

16. ágú. 2007

Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands tekur þátt í hátíðarhöldum Reykjavíkurborgar á Menningarnótt með tvennum hætti að þessu sinni. Tveir hópar Ungmennadeildar Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R) verða áberandi á götum borgarinnar á þessum hátíðardegi þó með ólíkum hætti sé.

Skyndihjálparhópurinn gegnir sem fyrr mikilvægu hlutverki í öryggisgæslu höfuðborgarinnar og starfar við hlið lögreglu og björgunarsveita við eftirlit og aðstoð. Félagar í skyndihjálparhópnum verða á ferðinni um borgina svo lengi sem þörf er á og veita þeim sem á þurfa að halda fyrstu hjálp. Hópurinn hefur mikla reynslu af aðstoð á viðburðum sem þessum og er það Reykjavíkurdeild Rauða krossins sönn ánægja að geta boðið fram þjónustu sína á stærstu samkomu Reykjavíkurborgar.

Unglingarnir URKÍ-R munu ekki láta sitt eftir liggja og nota þetta tækifæri til að vekja athygli á fodómum og mismunun í íslensku samfélagi.  Unglingahópurinn stendur fyrir uppákomu milli kl. 13:00 -16:00 undir yfirskriftinni ,,Hendum fordómunum í ruslið”. Félagar í unglingastarfinu munu ganga um borgina í litlum hópum með ruslatunnur og bjóða vegfarendum að losa sig við þá fordóma sem þeir kunna að hafa. Þátttakendum Menningarhátíðar býðst þannig á táknrænan hátt að skrifa fordóma sína á þar til gerð blöð og fleygja þeim í ruslið - vonandi fyrir fullt og allt!

Nánari dagskrá Menningarnætur má sjá hér: http://www.menningarnott.is