Alþjóðlegir foreldrar hittast

5. okt. 2007

Fyrsta samverustund Alþjóðlegra foreldra fór fram í gær í Mekka, félagsmiðstöð Hjallaskóla. Ellefu foreldrar mættu með ellefu börn sín á aldrinum sex vikna til sex ára. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu um dagskrána og stýrðu henni með söng, leik og gleði.

Eftir formlega setningu og kynningu á verkefninu kynntu þátttakendur sig með nafni og sögðu frá hvaða landi þeir koma.
Á meðal þeirra voru fimm íslenskar mæður, þrjár pólskar, tvær frá Litháen og ein frá Ítalíu. Léttar veitingar voru í boði og leikföng fyrir börnin.

Markmið Kópavogsdeildar með verkefninu er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eru heima með börn á aldrinum 0-6 ára. Allir foreldar, innflytjendur og innfæddir eru innilega velkomnir, hvort sem þeir tala enga íslensku eða litla.

Alþjóðlegir foreldrar hittast í Mekka alla fimmtudaga frá kl.10.30-12.00. Í hvert sinn verður boðið upp á stutta íslenskukennslu og fjölbreyttar kynningar. Foreldrar eru hvattir til að mæta og kynnast skemmtilegum foreldrum af hinu ýmsu þjóðarbrotum. Þátttaka er ókeypis.

Sjá meðfylgjandi dagskrá:
11. október: Ungbarnanudd. Íslenskukennsla tengd líkamanum
18. október: Ungbarnamatur og næring. Íslenskukennsla um mat.
25. október: Svefn ungbarna. Íslenskukennsla.
1. nóvember: Slysavarnir barna og skyndihjálp. Íslenskukennsla.
8. nóvember: Kynning á sjálfboðaverkefnum Kópavogsdeildar Rauða krossins. Íslenskukennsla.
15. nóvember: Fræðsla um dagvistunarmál í Kópavogi (leikskólar og dagforeldrar). Íslenskukennsla.
22. nóvember: Matur frá ýmsum löndum. Allir koma með eitthvað að smakka frá sínu upprunalandi. Skipst á uppskriftum.
29. nóvember: Jólaföndur. Kynning á íslenskum jólasveinum og fleiri íslenskum jólasiðum. Íslenskukennsla tengd jólum. Jólalegar veitingar í boði.