Flóttafjölskyldurnar frá Kólumbíu aðlagast nýjum heimkynnum

17. okt. 2007

Kólumbíska flóttafólkið sem kom til landsins fyrir rúmri viku er nú hægt og rólega að byrja í aðlögunarferlinu sem stendur í eitt ár. Nýlega byrjaði fullorðna fólkið íslenskunám í Alþjóðahúsi og börnin eru að hefja nám í leik-, grunn-, og framhaldsskólum Reykjavíkur.

Flóttamannaverkefnið er samstarfsverkefni stjórnvalda, Rauða krossins, Reykjavíkurborgar og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Reykjavíkurdeild Rauða krossins hefur umsjá með framkvæmd móttkunnar fyrir hönd Rauða krossins og höfðu starfsfólk og sjálfboðaliðar á vegum deildarinnar meðal annars standsett íbúðir á vegum borgarinnar sem biðu flóttafólksins. Rútufyrirtækið Guðmundur Jónasson ehf. sá um að aka flóttafólkinu til hinna nýju heimkynna eins og það hefur alltaf gert síðan 1956 þegar fyrstu flóttamennirnir komu til Íslands.

Strax daginn eftir komuna heimsóttu stuðningsaðilar Rauða krossins flóttafólkið og sýndu því sitt nánasta umhverfi og fóru til dæmis í Fataflokkunarstöð Rauða krossins þar sem fólkið fékk hlý föt. Alls hafa 58 manns eða sex til sjö fjölskyldur á hverja flóttamannafjölskyldu boðist til að aðstoða flóttafólkið með stuðningi sínum næstu tólf mánuði og hafa sjaldan eða aldrei svo margir tekið þátt í flóttamannaverkefninu.

Stuðningsfjölskyldur Rauða krossins veita veigamikla aðstoð í aðlögun flóttafólksins. Hlutverk þeirra er með ýmsum hætti og fer í raun eftir hverjum og einum. Sumir fara í göngutúra eða sækja viðburði, aðrir spjalla eða spila fótbolta en hlutverkið er fyrst og fremst að vera til staðar og aðstoða flóttafólkið við að öðlast öryggistilfinningu á nýjan leik og að tengjast samfélaginu.

Ungmennadeild Rauða krossins tekur einnig þátt í flóttamannaverkefninu. Tíu ungmenni hafa boðist til að veita jafnöldrum sínum virkan stuðning í vetur með ýmsum hætti.

Reykjavíkurborg veitir flóttafólkinu margs konar þjónustu og ráðgjöf, meðal annars íslenskunám, samfélagsfræðslu og starfsþjálfun sem Alþjóðahúsið sér um. Þá er ýmis fagþjónusta og ráðgjöf einnig í boði. Félagsmálaráðuneytið hefur heildarumsjón með flóttamannaverkefninu.