BYKO verður bakhjarl ungmennastarfs Kópavogsdeildar Rauða krossins

19. okt. 2007

BYKO hefur ákveðið að styrkja ungmennastarf Kópavogsdeildar Rauða krossins með veglegu fjárframlagi í vetur og verður þannig helsti bakhjarl starfs Kópavogsdeildar með ungmennum af innlendum og erlendum uppruna. Um er að ræða verkefnin Enter og Eldhuga en þau eru bæði hluti af átakinu „Byggjum betra samfélag“ sem Rauði krossinn stendur fyrir.

Undirritun fór fram í opnu húsi hjá Kópavogsdeild í gær. Samningurinn gerir Kópavogsdeild kleift að standa að verkefnunum af þeim krafti og metnaði sem hugur hennar stendur til en mikill fjöldi barna og ungmenna af erlendum og íslenskum uppruna tekur þátt í verkefnunum. Sjálfboðaliðar á ýmsum aldri bera verkefnið uppi.

Enter er verkefni fyrir unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára. Verkefnið er unnið í samvinnu við mótttökudeild nýbúa í Hjallaskóla og hófst árið 2004. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og fá meðal annars málörvun og fræðslu í gegnum fjölbreytta leiki og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því. Verkefnið er hugsað sem eins konar samfélagsfræðsla sem börnin og sjálfboðaliðar geta haft gagn og gaman af.

Eldhugar eru ungmenni í Kópavogi á aldrinum 13-16 ára sem hittast vikulega í sjálfboðamiðstöð deildarinnar. Vonir standa til þess að þátttaka ungra innflytjenda í verkefninu styrki þá og fjölskyldur þeirra og leiði til aukinnar þátttöku þeirra í íslensku samfélagi. Krakkarnir hittast vikulega í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem sjálfboðaliðar vinna með þeim að fjölbreyttum og mannbætandi verkefnum í samræmi við hugsjónir og stefnumið Rauða krossins. Hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi eru í brennidepli með það að markmiði að auka skilning og samskipti milli einstaklinga af ólíkum uppruna.

Unglingar í Kópavogi á aldrinum 13-16 ára geta orðið Eldhugar með því að skrá sig í síma 554 6626 eða með því að senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is. Þeir sem vilja taka þátt í verkefnunum sem sjálfboðaliðar (18 ára og eldri) eru einnig hvattir til að hafa samband við Kópavogsdeild. Sjá einnig www.redcross.is/kopavogur.