Um 95 þúsund krónur söfnuðust á fatamarkaði MK-nema

22. nóv. 2007

Á fatamarkaði sem nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í Menntaskólanum í Kópavogi héldu um síðustu helgi söfnuðust um 95 þúsund krónur. Fjöldi manns kom á markaðinn og gerði góð kaup á notuðum dömu-, herra- og barnafatnaði ásamt dóti. Allur ágóðinn rennur til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík.

MK-nemarnir völdu föt fyrir markaðinn í fataflokkunarstöð Rauða krossins en hann var settur upp í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með aðstoð bæði Eldhuga og Enter-krakkanna.

Fatamarkaðurinn var lokaverkefni nemendanna í áfanganum um sjálfboðið Rauða kross starf. Menntaskólinn í Kópavogi er enn sem komið er eini framhaldsskólinn á landinu sem býður upp á þess háttar áfanga. Nemendurnir hafa unnið sjálfboðin störf fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins, svo sem starf með ungum innflytjendum í Enter og Eldhugunum og aðstoð við langveik börn í Rjóðrinu.