Tombólukrakkar í bíó

6. des. 2007

Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins stóð fyrir bíósýningu fyrir öll þau tombólubörn á höfuðborgarsvæðinu sem styrktu Rauða krossinn á árinu á degi sjálfboðaliðans í gær. Bíómyndin var Ævintýraeyjan Ibba og var sýningin í boði Laugarásbíós sem hefur undanfarin ár gefið sýningu í þessu skyni.

Framlag þessara yngstu styrktaraðila Rauða krossins nam rúmlega 500.000 krónum á árinu. Krakkarnir hagnast með ýmsum aðferðum; tombólusölu, flöskusöfnun, sölu á eigin listaverkum og ein lítil stúlka á Akranesi seldi hundasúrur.

Peningarnir sem tombólubörnin söfnuðu verða notaðir til að hjálpa börnum í Malaví. Malaví er í suðurhluta Afríku og er meðal fátækustu landa í heimi. Tugþúsundir barna í Malaví hafa misst foreldra sína úr alnæmi. Peningarnir sem söfnuðust verða notaðir til að aðstoða um 4.000 börn í bænum Nkalo í suðurhluta landsins sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis. Rauði kross Íslands hefur í samvinnu við Rauða krossinn í Malaví starfað að alnæmisverkefnum í Nkalo síðan 2002, og hefur aðstoðað börn á ýmsan hátt svo þau geti haldið áfram í skóla. Rauði krossinn  hefur byggt þrjá leikskóla í bænum og verða peningarnir notaðir til að kaupa borð og stóla, leikföng og skóladót.