Unglingar í Rauða krossinum eru í skemmtilegum verkefnum

10. jan. 2008

Unglingastarf Reykjavíkurdeildar, URKÍ-R, er öflugt um þessar mundir. Tveir hópar hittast á hverjum fimmtudegi og funda. Annar hópurinn í Breiðholti, Álfabakka 14a, 3. hæð og hinn hópurinn í miðbænum á Laugavegi 120, 5. hæð.
 
Síðustu mánuði hafa verkefnin verið fjölbreytt. Meðal annars fengu krakkarnir leiklistarkennara til að kenna spuna og heimsóttu fataflokkun Rauða krossins og aðstoðuðu við fataflokkun. Einnig fengu þau fræðslu í skyndihjálp, heimsóttu aðrar Rauða kross deildir og leiklistarhópurinn Perlan kom í heimsókn.
 
Fyrir jól föndruðu hóparnir jólakort og skrifuðu í þau kveðju og fóru með á Elliheimilið Grund. Var vel tekið á móti þeim og í tilefni heimsóknarinnar söng kór nokkur vel valin jólalög. Krakkarnir röltu svo um heimili Grundar og afhenti vistmönnum jólakortin.
 
Fyrr á árinu vann hópurinn að viðamikilli fræðslu fyrir almenning um skaðsemi HIV veirunnar í Afríku og fjölmenntu ásamt öðrum sjálfboðaliðum Rauða kross Íslands í Smáralindina og gáfu gestum og gangandi faðmlög. Með þessu vildu krakkarnir sýna á táknrænan hátt að HIV veiran smitast ekki með snertingu.
 
Framundan eru spennandi tímar í unglingastarfinu. Verið er að vinna að því að standsetja nýja færanlega sjálfboðamiðstöð Reykjavíkurdeildarinnar og er Unglingastarfið virkt í því verkefni. Einnig er á dagskrá sælgætisgerð en sælgætið verður selt og allur ágóði af því mun renna til styrktar unglingastarfi vinadeildar Reykavíkurdeildar í Gambíu. Einnig hafa hóparnir í hyggju að heimsækja aftur Fataflokkun Rauða krossins og finna góð föt sem konurnar í Konukoti geta nýtt.
 
Starfið er fyrir alla krakka á aldrinum 13-16 ára. Áhugasamir geta fengið nánari upplýsingar hjá forstöðumanni deildarinnar í síma 545 0407 eða í gegnum tölvupóstinn urkir@redcross.is