11.11.11. Dagur í lífi Rauða krossins

11. nóv. 2011

Guðleifur Magnússon og tíkin Karólína eru þátttakendur í alþjóðlegu verkefni Rauðakrosshreyfingarinnar við gerð heimildarmyndar þar sem sett eru saman myndbrot af störfum sjálfboðaliða Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim þann 11.11.11.  Þetta er hluti af alþjóðlegu verkefni sem kallast One Day on Earth (onedayonearth.org) þar sem myndir af fólki í daglegu amstri um allan heim er sett saman í eitt myndband til að sýna bæði fjölbreytileikann og kunnugleikann í lífi fólks hvar sem það býr jörðunni.

Guðleifur og Karólína eru heimsóknarvinir Rauða kross Íslands og annan hvern föstudag leggja þau leið sína saman í Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi. Heimilisfólkið nýtur samvistanna við þau, og margir gleðjast sérstaklega yfir því að komast í snertingu við Karólínu sem er einstaklega ljúfur og gefandi hundur.

Í dag, 11.11.11, eru þau ein af þúsundum af þeim 13 milljónum sjálfboðaliðum sem starfa fyrir Rauðakrosshreyfinguna um allan heim sem taka þátt í því að skrásetja það mannúðarstarf sem unnið er í nafni Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Á hverri mínútu á hverjum degi snertir sjálfboðaliði eða starfsmaður Rauða krossins eða Rauða hálfmánans líf einhvers sem þarf á aðstoð að halda. Með þátttöku í verkefninu Degi í lífi Rauða krossins vill Rauði krossinn heiðra sjálfboðaliða sína sem dag hvern gefa af dýrmætum tíma sínum til að vinna óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins.