Heimsóknavinir Kópavogsdeildar hittast mánaðarlega

14. mar. 2008

Kópavogsdeild Rauða krossins hélt mánaðarlega samveru heimsóknavina á þriðjudaginn. Alls mættu yfir tuttugu heimsóknavinir til að hlýða á erindi um þunglyndi og kvíða. Fulltrúi frá Geðhjálp hélt erindið og svaraði spurningum á eftir. Hann sagði frá starfi Geðhjálpar og persónulegri reynslu sinni en talaði einnig um einkenni þunglyndis og kvíða og gaf góð ráð um hvernig hægt er að hjálpa fólki sem glímir við slíka kvilla.

Samverur fyrir heimsóknavini deildarinnar eru alltaf annan þriðjudag hvers mánaðar og er markmiðið að hafa eitthvað sérstakt í boði í hvert sinn eins og hópefli, fræðslu eða heimsóknir. Samverurnar eru hugsaðar sem tækifæri fyrir alla heimsóknavini deildarinnar til að hittast og eiga ánægjulega stund saman en heimsóknavinir sinna sjálfboðnum störfum í Sunnuhlíð, á sambýlum aldraðra, í Dvöl, í Rjóðrinu og á einkaheimilum.

Þeir sem hafa áhuga á frekari upplýsingum um heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar eða að gerast heimsóknavinir eru hvattir til að hafa samband í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]
.