Dæmir þú fólk eftir útlitinu?

19. mar. 2008

Í tilefni af Evrópuviku gegn fordómum tók Rauði krossinn þátt í hátíðarhöldum í gær ásamt Mannréttindaskrifstofu, Alþjóðahúsi, Amnesty International, Þjóðkirkjunni, Íslandi Panorama og Soka Gakkai Íslandi. Hátíðarhöldin fóru fram í Smáralind, Glerártorgi og Neista.

Um hundrað krakkar frá ungmennahreyfingum félaganna voru í Smáralind. Einnig tóku Hara systur nokkur val valin lög við góðar undirtektir Smáralindargesta. Á Glerártorgi var mikið um dýrðir en þar kom hljómsveitin Edocsil fram og skemmti gestum.

Markmið krakkanna var að vinna gegn fordómum og spjölluðu þau við gesti og gangandi um kynþáttamisrétti og gáfu veggspjöld, sælgæti og barmmerki. Þau klæddust öll bolum þar sem varpað var fram spurningunni ,,dæmir þú fólk eftir útlitinu?" og höfðu málað andlit sín í öllum regnbogans litum til að vekja fólk til umhugsunar um það hvort við dæmum fólk eftir útliti þess eða litarafti frekar en verðleikum.

Viðburðurinn var afar vel heppnaður í alla staði. Krakkarnir stóðu sig með mikilli prýði og skemmtu sér konunglega og kunna aðstandendur viðburðarins þeim miklar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf. Vilja félögin einnig þakka Smáralind, Glerártorgi, Neistanum, Merkingu og AFA JCDecaux fyrir frábærar viðtökur og mikilvægan stuðning.

Krakkarnir sem tóku þátt í hátíðarhöldunum á Glerártorgi.
Um 100 krakkar frá félögunum sjö voru í Smáralindinni.
Glæsilegir fulltrúar ungmennahreyfinganna.
Hara systur tóku nokkur lög.
Edocsil skemmti gestum á Glerártorgi.