Gott vinnuframlag í Kópavogi!

21. nóv. 2011

Kópavogsdeild barst rausnarlegt framlag til starfseminnar frá sjálfboðaliðasamtökunum Veraldarvinir - Worldwide Friends á dögunum  þar sem  sjálfboðaliðar þaðan lögðu fram krafta sína. Sjálfboðaliðar úr félaginu sinna á ári hverju ýmsum verkefnum bæði fyrir ríki, einstaklinga og stofnanir. Má þar nefna umhverfisverkefni og aðstoð við bændur. Á veturna fækkar verkefnum fyrir hópinn og  þess vegna höfðu þau samband við Kópavogsdeild og buðu fram aðstoð sína.

Sjálfboðaliðarnir hafa sinnt endurbótum á húsnæði deildarinnar í Hamraborg 11  og málað það hátt og lágt með frábærum árangri. Þeir munu einnig vera deildinni innan handar á jólabasar hennar  næstkomandi laugardag og dreifa auglýsingum fyrir basarinn. Auk þeirra sjá sjálfboðaliðar deildarinnar um basarinn en sjálfboðaliðar í Föt sem framlag og Plúsnum hafa lagt mikið á sig til að gera basarinn sem veglegastan.

Kópavogsdeild færir sjálfboðaliðum Veraldarvina bestu þakkir fyrir þeirra framlag í þágu deildarinnar.