Doberman félagar hafa áhuga á að vera heimsóknavinir

10. apr. 2008

Heimsóknir sjálfboðaliða með hunda fór af stað árið 2006 en það er angi af heimsóknavinaverkefni Rauða krossins sem lýtur að því að draga úr félagslegri einangrun fólks. Sífellt meiri eftirspurn er eftir því að fá hund í heimsókn og vantar orðið sjálfboðaliða til að sinna verkefninu.

Á laugardaginn fóru verkefnistjóri heimsóknarþjónustu á landsskrifstofu ásamt sjálfboðaliða, sem er heimsóknarvinur með hund, og kynntu verkefnið fyrir félögum í „Doberman Ísland“ sem er félag Doberman hundaeigenda á Íslandi. Mikill áhugi er hjá félagsmönnum að taka þátt í verkefninu og var þeim kynnt það ferli sem hundaeigendur þurfa að fara í gegnum áður en hundarnir geta farið að heimsækja á vegum Rauða krossins ásamt fleiru. 

Nú eru um 20 heimsóknavinir með hund virkir í heimsóknaþjónustu og fara þeir m.a. í heimsóknir á einkaheimili, elliheimili, athvörf fyrir geðfatlaða, sambýli fyrir fatlaða og skammtímavistun fyrir langveik börn.

Þeir sem áhuga hafa á að gerast sjálfboðaliðar skrái sig hér.