Undirbúningur hafinn fyrir fatamarkað MK-nema

11. apr. 2008

Nemendur Menntaskólans í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 hófu í vikunni undirbúning fyrir fatamarkað sem haldinn verður í sjálfboðamiðstöðinni 18. og 19. apríl næstkomandi. Áfanginn snýst um að vinna sjálfboðið starf fyrir Kópavogsdeild og er fatamarkaðurinn lokaverkefni nemendanna. Fóru þeir í fataflokkunarstöð Rauða krossins til að velja föt á markaðinn. Á næstunni munu þeir setja hann upp í sjálfboðamiðstöðinni, hengja upp auglýsingar vítt og breitt um Kópavog og loks afgreiða á markaðinum sjálfum.

Nemendurnir hafa einkum unnið í tveimur verkefnum þessa önnina, annars vegar í Eldhugum og hins vegar í Rjóðrinu þar sem þau aðstoða langveik börn og veita þeim félagsskap í leik og föndri.

Markaðurinn verður föstudaginn 18. apríl kl. 14-18 og laugardaginn 19. apríl kl. 11-17. Seld verða notuð föt á konur, karla, ungmenni og börn, ásamt alls kyns varningi, á verðinu 300-1500 krónur. Allur ágóði rennur til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík.