Sjálfboðaliðar í Hnotuberg

16. apr. 2008

Hafnarfjarðardeild Rauða krossins hélt á mánudaginn fund fyrir sjálfboðaliða sem stefna að því að vinna að verkefni með skammtímavistun Hnotubergs.

Birgir Freyr Birgisson forstöðumaður Hnotubergs mætti til að kynna verkefnið og segja frá aðstæðum þeirra sem þar búa. Verkefnið er hugsað fyrir aldurshópinn 17-30 ára og eiga sjálfboðaliðar að búa til viðburði sem þeir geta fengið vistmenn Hnotubergs með sér í lið.

Í Hnotubergi er starfrækt skammtímavistun fyrir fötluð ungmenni á vegum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Hlutverk vistunarinnar er að bjóða upp á hvíldarinnlögn fyrir foreldra barna með fötlun, auka félagshæfni einstaklinga, stuðla að þátttöku þeirra í félagsstarfsemi sem þeim stendur til boða, virkja þau í útivist og hreyfingu og undirbúa einstakling fyrir sjálfstæða búsetu í framtíðinni.

Ungmennin sem sækja þjónustuna búa flest öll við félagslega einangrun sökum líkamlegrar fötlunar og/eða þroska. Þau hafa því ekki sömu tækifæri til að reyna nýja hluti líkt og önnur ungmenni á þeirra aldri þar sem í flestum tilvikum er þörf á aðstoðarmanni til að hvetja og aðstoða.

Makmið verkefnisins er að veita ungu fötluðu fólki tækifæri á að reyna nýja hluti óháð fötlun þeirra. Með því að virkja unga sjálfboðaliða til að koma með hugmyndir að viðburðum er vonast til að reynt verði á persónuleg þolmörk allra og að hugsanlega verði farið út fyrir þægindasvið þeirra. Með þessu má ætla að íbúar Hnotubergs geri hluti sem þeir töldu áður fyrr að væri ekki hægt að gera og í kjölfarið horfi þeir með jákvæðara ljósi á líf sitt og getu.