Ársskýrsla 2007

23. apr. 2008

Svæðissamstarf deilda á höfuðborgarsvæði er myndað af sex deildum: Álftanesdeild, Garðabæjardeild, Hafnarfjarðardeild, Kjósarsýsludeild, Kópavogsdeild og Reykjavíkurdeild. Í svæðisráði á höfuðborgarsvæði eru fulltrúar allra deilda auk fulltrúa URKÍ sem situr fundi með málfrelsi og tillögurétt.

Formaður svæðisráðs er Einar Guðbjartsson fulltrúi Kjósarsýsludeildar. Jóhannes Rúnar Jóhannsson Hafnarfjarðardeild lét af formennsku svæðisráðs á svæðisfundi sem haldinn var 10. október 2007. Fundað er fyrsta miðvikudag hvers mánaðar. Svæðisskrifstofa Rauða kross Íslands á höfuðborgarsvæði er staðsett í húsnæði Hafnarfjarðardeildar í Strandgötu 24. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir tók við starfi svæðisfulltrúa í september þegar Jón Brynjar Birgisson tók við starfi verkefnisstjóra neyðarvarna og neyðaraðstoðar á landsskrifstofu.

Fræðsla í grunnskóla
Líkt og undanfarin ár bjóða deildir á höfuðborgarsvæði grunnskólum á svæðinu upp á fræðslu fyrir 8. bekki. Svæðisfulltrúi og starfsmenn deilda sjá um hana í sameiningu. Lögð er áhersla á að fræða nemendur um starfsemi Rauða krossins utan sem innan landsteinanna, auk þess sem verkefni viðkomandi deildar eru kynnt. Um það bil 30 grunnskólar á svæðinu nýttu sér þessa fræðslu á árinu.

Sumarbúðir og ungmennamál
Samstarf var við Rauða kross deildir á Norðurlandi um sumarbúðir á Löngumýri og í Stykkishólmi enda koma að jafnaði yfir 60% þátttakenda á þær búðir frá höfuðborgarsvæðinu. Eins og fyrri ár greiddi svæðissjóður kostnað vegna vorferðar og vetrarferðar ungmennahópa Rauða kross deilda. Svæðissjóður veitti skyndihjálparhópi styrk til þess að komast á smáþjóðaleikana í Mónakó þar sem félagar hans sinntu skyndihjálp. Svæðið styrkti tvo á flótta leiki á höfuðborgarsvæðinu. Svæðinu bauðst að senda fimm þátttakendur til þátttöku í James Cook í boði Straums Burðaráss og fóru þeir frá þeim fjórum deildum á höfuðborgarsvæðinu sem eru með ungmennastarf.

Athvörfin og málefni geðfatlaðra
Svæðissamstarfið stóð fyrir opnum fræðslufundi um kvíðaraskanir. Það voru einkum sjálfboðaliðar athvarfanna þriggja, Vinjar, Læks og Dvalar sem nýttu sér hann. Á fundinn var boðið gestum, starfsmönnum og sjálfboðaliðum athvarfanna auk öllu áhugafólki um geðheilbrigðimál. Svæðissamstarfið stóð fyrir námskeiði fyrir aðstandendur geðfatlaðra.

Námskeið
Sjö grunnnámskeið fyrir sjálfboðaliða og áhugasama voru haldin á starfsárinu. Þátttakendur voru rétt á þriðja hundrað.

Neyðarvarnir
Neyðarnefnd höfuðborgarsvæðis er mynduð af þeim sex deildum sem starfa innan svæðissamstarfsins, Álftanesdeild, Garðabæjardeild, Hafnarfjarðardeild, Kjósarsýsludeild, Kópavogsdeild og Reykjavíkurdeild. Formaður nefndarinnar er Einar Rúnar Axelsson en hann tók við af Birgi Frey Birgissyni á árinu.

Helstu verkefni neyðarnefndarinnar eru að sjá til þess að neyðarvarnaráætlun höfuðborgarsvæðisins sé uppfærð og að fjöldahjálparstjórar séu tilbúnir þegar kallið kemur. Nefndin hélt stóra fjöldahjálparæfingu í Varmárskóla í janúar. Jafnframt var haldið eitt fjöldahjálparstjóranámskeið og fjölsótt fræðslukvöld fyrir fjöldahjálparstjóra á svæðinu. Neyðarnefndin tók þátt í sameiginlegri skrifborðsæfingu viðbragðsaðila vegna flugslyss á Reykjavíkurflugvelli.

112 dagurinn fór fram þann 11. 2. Fjöldinn allur af sjálfboðaliðum, fjöldahjálparstjórum og leiðbeinendum í skyndihjálp af svæðinu tóku þátt. Viðbragðshópur höfuðborgarsvæðis sem starfar utan almannavarnaástands var kallaður út þrisvar sinnum á árinu, tvisvar vegna bruna í íbúðarhúsum og einu sinni vegna rýmingar úr ólöglegu húsnæði.

Neyðarnefndin á áheyrnarfulltrúa í almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins og jafnframt sæti í aðgerðarstjórn almannavarna. Fulltrúar neyðarnefndar tóku þátt í vinnu vegna birgðageymslu almannavarna í samstarfi við almannavarnarnefnd og IKEA sem leiddi af sér að undirritaður var samningur þess efnis að hægt væri að leita til IKEA vegna birgða, svo sem rúma, ef til þess kæmi að hýsa þyrfti fólk í fjöldahjálparstöðvum.