Jólasöfnun Rauðakrossins í Reykjavík - sjálfboðaliðar óskast.

25. nóv. 2011

Líkt og undanfarin ár stendur Reykjavíkurdeild Rauða krossins að úthlutunum til þeirra sem minna mega sín í formi fjárstyrkja í samstarfi við Hjálparstofnun kirkjunnar. Ljóst er að þörfin fyrir aðstoð um hátíðirnar hefur síst minnkað frá fyrra ári.

Eins og tvö síðastliðin ár hefur Reykjavíkurdeildinni verið boðið að standa að fjársöfnun á Laugavegi og Skólavörðustíg á laugardögum og á Þorláksmessu nú í desember með því að gefa gestum og gangandi kakó. Kaupmenn við umræddar verslunargötur leggja til aðstöðu við 10 verslanir, borð, skreytingar og piparkökur. Þá munu sjálfboðaliðasamtökin SEEDS hjálpa til við kakódreifinguna með því að reka þrjár uppáhellingarstöðvar. Mjólkin verður í boði MS, súkkulaði til uppáhellingar í boði Nóa-Síríus og drykkjarílát í boði Gevalia.

Við leitum nú til sjálfboðaliða okkar um að taka að sér að gefa kakó til gesta og gangandi á Laugavegi og Skólavörðustíg á laugardögum  í desember og safna um leið til styrktar jólaúthlutunum. Á hverri starfsstöð verður staðsettur söfnunarbaukur Rauða krossins og mun allt það fé sem safnast renna beint í jólaúthlutanir.

 

Boðið verður uppá kakó frá kl. 13 til 18 á laugardögum (frá kl. 15 til 20 á Þorláksmessu) og höfðum við hugsað okkur að tvískipta vöktum. Hugmyndin er að hafa tvo sjálfboðaliða á hverjum tíma við hverja stöð. Okkur vantar því 20 sjálfboðaliða fyrir hverja vakt eða 40 sjálfboðaliða yfir daginn.

Dagarnir sem um ræðir eru laugardagarnir  3.- 10.- og 17. desember og að föstudagurinn 23. desember, Þorláksmessa.

Vaktirnar á laugardögum verða frá kl. 13:00 til 15:30 og frá kl. 15:30 til 18:00, en á Þorláksmessu verður vakt frá kl. 15:00 til 17:30 og frá kl. 17:30 til 20:00.

Ef þú hefur tækifæri til að verja nokkrum tímum einhvern laugardaganna í desember, eða á Þorláksmessu, til að safna fyrir jólaúthlutunum til þeirra sem minna mega sín, þá endilega sendu okkur eftirfarandi upplýsingar um þig: nafn, síma og netfang og tilgreindu hvaða dagur og tími muni henta þér best.

Skráning sendist á  thorgisla@redcross.is

Nánari upplýsingar veitir Þór Gíslason í síma 545-0406