Deiglan með opið hús á laugardögum

28. nóv. 2011

Deiglan, virknisetur atvinnuleitenda í Hafnarfirði, mun verða með opið hús alla laugardaga í aðventunni. Nú um helgina var fyrsta opnunin þar sem gestir Deiglunnar sýndu hvernig á að bera sig að við ýmiskonar handverksgerð auk þess sem handgerðir munir voru til sölu. Gestir og gangandi gátu fengið sér rjúkandi kakó, kaffi og nýbakaðar vöfflur gegn frjálsu framlagi.

Að sögn Guðrúnar Ólafsdóttur, verkefnisstjóra Deiglunnar, var aðsókn mjög góð og mikill áhugi á því kraftmikla starfi sem boðið er uppá í Deiglunni. Það er því tilhlökkun í hópnum um framhaldið og þegar byrjað að skipuleggja næstu opnun sem verður laugardaginn 3. desember frá 13-18.

Fyrir framan Rauðakrosshúsið í Hafnarfirði kúrir Jólaþorpið svo upplagt er að slá tvær flugur í einu höggi og heimsækja þorpið og Deigluna í sömu ferð.

Deiglan er annars opin mánudaga, miðvikudaga og föstudaga frá 10 til 14 og er alltaf boðið uppá spennandi dagskrá. Í þessari viku má nefna leðurtöskugerð, útskurð, gönguhóp og fjörugar þjóðmálaumræður á föstudegi. Deiglan er opin öllum atvinnuleitendum.