Kópavogsdeild veitir veglega styrki á 50 ára afmælinu

14. maí 2008

Kópavogsdeild Rauða krossins hefur fært hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð og Fjölsmiðjunni í Kópavogi veglegar gjafir í tilefni af 50 ára afmæli sínu. Garðar H. Guðjónsson formaður afhenti gjafirnar á sérstökum hátíðarfundi stjórnar á alþjóðadegi Rauða krossins 8. maí. Við sama tækifæri afhentu nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi hjálparsjóði Rauða kross Íslands afrakstur af fatamarkaði sem þeir héldu nýverið til styrktar ungmennum í Mósambík.

Sunnuhlíð og Fjölsmiðjan eru meðal umfangsmestu verkefnanna í fimmtíu ára sögu Kópavogsdeildar frá stofnun 12. maí 1958. Hvor stofnunin um sig hlaut 500 þúsund krónur til brýnna tækjakaupa. Kópavogsdeild hafði afgerandi forystu um uppbyggingu Sunnuhlíðar frá því um 1980 og til aldamóta. Þar varð einnig til sjálfboðið starf sem myndaði grunn að öflugri heimsóknaþjónustu sem deildin heldur úti nú. Rauði krossinn átti jafnframt frumkvæði að stofnun Fjölsmiðjunnar 2001 og hefur Kópavogsdeild stutt dyggilega við uppbyggingu og rekstur hennar síðan.

Kópavogsdeild fagnar afmælinu með margvíslegum hætti á næstu vikum. Þar
ber hæst útgáfu veglegs rits um sögu deildarinnar 1958-2008 þar sem Garðar H. Guðjónsson rekur verk hennar í máli og myndum.

Af öðrum verkefnum sem rísa hátt í sögu deildarinnar má nefna stofnun og rekstur Dvalar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir, en athvarfið fagnar tíu ára afmæli í haust. Kópavogsdeild hefur á síðustu árum byggt upp öflugt sjálfboðið starf í þágu þeirra sem búa við einsemd og félagslega einangrun og heldur úti verkefnum sjálfboðaliða í þágu innflytjenda á ýmsum aldri. Sjálfboðaliðar deildarinnar eru nú um 300 talsins.