Fengin í sjálfboðaliðastörf í heita pottinum

15. maí 2008

Sigríður Þorvaldsdóttir, eða Ninna eins og hún er alltaf kölluð, hefur starfað sem sjálfboðaliði í Rauðakrossbúðinni í Hafnarfirði frá opnun búðarinnar haustið 2005. Ninna vinnur eina vakt í viku á föstudögum því hún vill gjarnan láta gott af sér leiða. Hér má lesa stutt viðtal við Ninnu.
 
Hvernig kom til að þú fórst að vinna í Rauðakrossbúðinni?
Ég var hætt að vinna og hafði lengi unnið við verslunarstörf m.a. í ein 27 ár í fataversluninni Emblu sem var í miðbæ Hafnarfjarðar. Mér fannst ég enn full af orku og vildi finna mér eitthvað að gera. Einn daginn var ég stödd í heitapottinum í Sundhöllinni og heyrði af því að til stæði að opna þessa búð. Þar var kona sem heitir Gunnhildur Sigurðardóttir og hefur verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum lengi, að segja okkur frá því hvað til stæði. Ég ákvað því að láta mér ekki einungis nægja að hlusta heldur skella mér í verkefnið.

Hvernig er þátttaka þín sem sjálfboðaliði?
Í upphafi vorum við sjálfboðaliðarnir að undirbúa opnun búðarinnar. Það var mjög gaman að fá að vera með alveg frá upphafi. Við vorum ekki margar í fyrstu svo við tókum að okkur að vinna mikið til að verkefnið kæmist af stað. Stundum vann ég tvo til þrjá daga í viku í upphafi en fljótlega bættust fleiri í hópinn og meiri regla komst á verkefnið. Ég hef þó alltaf verið í að hlaupa til í forföllum því ég á heima nálægt miðbænum og er fljót að koma ef einhver forfallast. Í dag erum við þó með góðan hóp sjálfboðaliða svo oftast vinn ég bara mína vakt einu sinni í viku.

Hvað er skemmtilegast við þetta starf?
Það er mjög gaman að sjá hvað búðin hefur dafnað vel og verslun í henni er alltaf að aukast. Við eigum okkar föstu kúnna og mér finnst mjög skemmtilegt að hitta sama fólkið sem kemur og verslar aftur og aftur. Ekki er verra þegar það man líka eftir manni og gefur sér tíma til að spjalla. Mér líður vel í miðbænum og verslunarstörfin eiga vel við mig. Það er líka góð tilfinning að vita að maður er að láta gott af sér leiða.