Saga Kópavogsdeildar 1958-2008

19. maí 2008

Saga Kópavogsdeildar Rauða krossins í 50 ár er komin út en þar er greint frá verkum deildarinnar og sjálfboðaliða hennar frá stofnun 12. maí 1958 til þessa dags. Um er að ræða veglegt afmælisrit prýtt fjölda mynda og ber það heitið Verkin tala – Kópavogsdeild Rauða krossins 1958-2008. Garðar H. Guðjónsson tók verkið saman en Kópavogsdeild er útgefandi. Útgáfu ritsins og afmælis Kópavogsdeildar var fagnað í móttöku í sjálfboðamiðstöð deildarinnar fimmtudaginn 15. maí.

Unnið hefur verið að útgáfu ritsins síðan aðalfundur deildarinnar 2005 samþykkti að ráðist skyldi í undirbúning. Kópavogsdeild hefur í áranna rás ráðist í stórvirki í þágu aldraðra, fólks með geðraskanir, ungmenna í vanda og fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun. Á síðustu árum hefur deildin byggt upp öflugt starf sjálfboðaliða að ýmsum verkefnum og eru samningsbundnir sjálfboðaliðar deildarinnar nú um 300 talsins.

Sporin eftir starf sjálfboðaliða deildarinnar eru auðsjáanleg í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð, Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, og í Fjölsmiðjunni í Kópavogi. Þau liggja þó ekki síst í hjörtum þeirra fjölmörgu sem deildin hefur borið gæfu til að verða að liði í gegnum tíðina. Saga deildarinnar er um það hvernig forystumenn, sjálfboðaliðar og starfsfólk hafa látið verkin tala í anda hugsjóna Rauða krossins og þágu þeirra sem þurft hafa á liðsinni hennar að halda.

Höfundurinn segir í formála að ritið sé gefið út í þakklætisskyni við alla sem lagt hafa starfinu lið í þau 50 ár sem liðin eru frá stofnun. Ritinu verður dreift án endurgjalds meðal sjálfboðaliða og samstarfsaðila en það verður einnig til sölu hjá útgefanda.