Tímamótasamningur um fatasöfnun

19. maí 2008

Á laugardaginn skrifuðu Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu undir nýjan samning um fatasöfnun. Markar samningurinn nokkur tímamót í sögu verkefnisins en með honum er stjórnun verkefnisins einfölduð og vænta menn þess að það verði til mikilla hagsbóta.

Þriggja manna rekstrarstjórn mun nú stýra verkefninu ásamt verkefnisstjóra. Í þessari fyrstu verkefnisstjórn sitja Þórir Guðmundsson Reykjavíkurdeild, sem jafnframt er formaður, Gunnar M. Hansson Kópavogsdeild og Herdís Sigurjónsdóttir Kjósarsýsludeild. Verkefnisstjóri fatasöfnunar er Örn Ragnarsson.

Fatasöfnun Rauða krossins á sér farsæla og langa sögu. Í upphafi voru það deildirnar sem hver sá um að safna fötum í sinni heimabyggð og voru gámar þá oftast staðsettir við matvöruverslanir eða á öðrum fjölförnum stöðum. Það var svo árið 2000 sem deildirnar skrifuðu undir fyrsta samning um fatasöfnun á svæðinu öllu og færðist söfnunin þá inná söfnunarstöðvar Sorpu. Allt frá þeim tíma hefur verkefnið vaxið og dafnað og með hverju árinu berst Rauða krossinum meira magn fatnaðar. Nú er svo komið að yfir 1.200 tonn af fatnaði safnast á höfuðborgarsvæðinu ár hvert.

Fulltrúar deilda á höfuðborgarsvæði sem koma að fatasöfnunarverkefninu ásamt framkvæmdastjóra.
Allur fatnaður sem berst nýtist. Hann er ýmist seldur til endurvinnslufyrirtækja í Evrópu eða notaður í hjálparstarf innanlands eða seldur í Rauðakrossbúðunum. Fataúthlutanir innanlands fara nú fram einu sinni í viku og reknar eru tvær búðir með notaðan fatnað, önnur á Laugavegi 12 í Reykjavík og hin að Strandgötu 24 í Hafnarfirði.