Nýr forstöðumaður hefur tekið til starfa á Fjölskyldumiðstöð

28. maí 2008

Ragnheiður Sigurjónsdóttir hefur tekið við starfi forstöðumanns Fjölskyldumiðstöðvar. Erla Þórðardóttir hefur látið af störfum og eru henni færðar þakkir fyrir vel unnin störf.

Ragnheiður hefur áralanga reynslu af margskonar félags-, uppeldis- og meðferðarmálum. Á allra síðustu árum hefur hún rekið skammtímaheimilið að Hraunbergi 15 ásamt því að hafa yfirumsjón þriggja stuðningsheimila sem rekin eru af Reykjavíkurborg. Hún hefur verið ráðgjafi á Fjölskyldumiðstöð og talsmaður barna fyrir barnaverndarnefndir víða um land.

Ragnheiður er leikskólakennari að mennt og hefur auk þess framhaldsmenntun í uppheldisfræði og stjórnun á uppeldissviði, framhaldsnám í fjölskyldumeðferð og auk þess framhaldsnám í Psykodrama-meðferð.

Reykjavíkurdeild Rauða krossins hefur rekið Fjölskyldumiðstöðina í samvinnu við Reykjavíkurborg (Velferðarsvið) frá árinu 1997 en verkefnið nýtur auk þess stuðnings heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis.

Markmið starfseminnar er að bjóða aðgengilega ráðgjöf fyrir fjölskyldur, styrkja bjargráð innan þeirra og veita markvissa leiðsögn um úrbætur. Áhersla er á að styðja foreldra, sem eiga börn í vanda, svo sem vegna vímuefnaneyslu, samskiptavanda, hegðunarfrávika og erfiðleika í skóla.

Ráðgjöfin er veitt með viðtölum fyrir hverja fjölskyldu og einnig er í boði hópastarf, sem er tvíþætt, annars vegar barna/unglingahópur þar sem starf miðast við að efla skilning á breytingum unglingsáranna og innsæi í samskiptum og hins vegar foreldrahópur til að styrkja foreldra í uppeldishlutverkinu með samræðum, fræðslu og að deila reynslu innan hópsins.