Unglingastarfið í vorferð

28. maí 2008

Krakkarnir sem taka þátt í unglingarstarfi deilda á höfuðborgarsvæðinu héldu í sína árlegu vorferð á laugardaginn. Eftir að hafa smalað hópnum saman í rútu var  haldið til Stokkseyrar þar sem farið var í frábæra sundlaug sem þar er. Voru krakkarnir duglegir við að synda og sprikla, enda rennibraut á staðnum ásamt boltum og ýmsum leiktækjum.
 
Draugar, beinagrindur, álfar og tröll voru sótt heim í Drauga-, Trölla- og Álfasetrin að Stokkseyri. Krakkarnir voru himinlifandi yfir söfnunum og vildu sum fara strax af stað aftur þegar þau voru búnir að fara einn hring, en önnur voru ánægð að ferðin um söfnin var yfirstaðin.
 
Þegar búið var að hræða líftóruna úr öllum, þá sérstaklega leiðbeinendum, var haldið til Hveragerðis þar sem farið var í leiki og hamborgarar grillaðir í góðviðrinu. Fékk hópurinn afnot af húsnæði Hveragerðisdeildarinnar og þökkum við henni fyrir það.
 
Það er óhætt að segja að dagurinn lukkaðist mjög vel og voru allir sáttir, bæði unglingar og leiðbeinendur, þegar haldið var heim til þess að fylgjast með gangi Regínu og Friðriks í Evróvisjónkeppninni miklu um kvöldið.