Tombólubörnum og sjálfboðaliðum Rauða krossins þakkað á alþjóðadegi sjálfboðaliðans

5. des. 2011

Á alþjóðadegi sjálfboðaliðans, 5. desember, vill Rauði kross Íslands vekja athygli á því óeigingjarna starfi sem sjálfboðaliðar félagsins leggja til samfélagsins, og þakka þeim fyrir. Á Íslandi starfa rúmlega 3000 sjálfboðaliðar með Rauða krossinum eða einn af hverjum 100 Íslendingum.

Rauði krossinn vill einnig nota tækifærið til að heiðra yngstu sjálfboðaliða sína á þessum degi, en um 500 tombólubörn lögðu félaginu lið á þessu ári. Framlög tombólubarna eru alltaf notuð til að aðstoða önnur börn víða um heim. Að þessu sinni verður peningunum varið til hjálpar börnum í Japan eftir jarðskjálftana sem urðu þar í mars, og í Sómalíu þar sem mikil hungursneyð ríkir vegna þurrka.

Sú skemmtilega hefð hefur skapast að Laugarásbíó bjóði tombólubörnum á höfuðborgarsvæðinu í bíó í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans og í gær mætti fjöldi barna á sérstaka hádegissýningu á myndinni um Björgunarbátinn Elías. Þetta er í níunda sinn sem Laugarásbíó heiðrar yngstu kynslóð Rauða krossins með þessum hætti og kann félagið bíóinu miklar þakkir fyrir.

Um 13 milljón manna unnu sjálfboðaliðastörf í þágu Rauða krossins og Rauða hálfmánans á síðasta ári á hamfarasvæðum, og veittu ríflega 30 milljón manns aðstoð.  Um 10.000 manns nota reglulega þjónustu Rauða krossins á Íslands á ári hverju, en ætla má að um helmingi fleiri njóti góðs af starfi Rauða krossins óbeint. Ársframlag sjálfboðaliða Rauða krossins í klukkustundum talið er um 302.000 klst. eða 145 ársverk sem framreikna má skv. meðallaunum allt að 700 milljónum króna.