Fatasöfnunin fer í draumahúsnæðið

10. jún. 2008

Fatasöfnunarstöð Rauða krossins fer í nýtt húsnæði í sumar. Hún flytur á besta mögulega stað, við Skútuvog 1, steinsnar frá athafnasvæði Samskipa við Sundahöfn. Fatasöfnunin hefur hingað til haft aðsetur við Gjótuhraun í Hafnarfirði.

"Þetta er draumastaðsetningin, nálægt höfninni og helstu flutningaleiðum og aðgengileg skjólstæðingum og sjálfboðaliðum á einkabílum eða í strætó," segir Þórir Guðmundsson, nýkjörinn formaður stjórnar Fatasöfnunar Rauða krossins.

Örn Ragnarsson verkefnisstjóri Fatasöfnunar segir “Tíu ára leigusamningur gerir okkur kleift að ná meiri stöðugleika í starfseminni. Fatasöfnunin hefur þurft að flytja fjórum sinnum á átta árum. Nú fáum við  tækifæri til að skapa enn meiri verðmæti úr fötum frá almenningi”.

Vonast er til að í hinu nýja húsnæði verði hægt að flokka mun meira af fatnaði til sölu innanlands. Plássleysi hefur hingað til staðið meiri og betri flokkun fyrir þrifum.

Stjórn Fatasöfnunar, sem í sitja, auk Þóris, Gunnar M. Hansson og Herdís Sigurjónsdóttir, hyggst á næstunni leita leiða til að efla bæði sjálfa fatasöfnunina og sölu fatnaðar í verslunum Rauða krossins á Laugavegi í Reykjavík og við Strandgötu í Hafnarfirði.

Það sem af er þessu ári hefur Rauði krossinn safnað um 440 tonnum af fatnaði. Langmest fer í sölu erlendis en annað er annað hvort selt hér heima eða úthlutað til þurfandi. Þannig hafa um 1,000 úthlutanir farið fram á vegum Fatasöfnunarinnar hér innanlands á árinu. Ágóður af sölu fatnaðarins fer allur í verkefni á vegum Hjálparsjóðs Rauða kross Íslands.