Deildir þakka sjálfboðaliðum framlag þeirra

6. des. 2011

Deildir Rauða kross Íslands heiðruðu sjálfboðaliða sína á alþjóðadegi sjálfboðaliðans þann 5. desember og árið 2011 er einnig alþjóðlegt ár sjálfboðaliðans.

Kópavogsdeild bauð sjálfboðaliðum sínum í gleði og heiðraði sjálfboðaliða. Löng hefð er fyrir því hjá deildinni að gera sér glaðan dag í tilefni dagsins. Alls mættu 55 sjálfboðaliðar og makar þeirra. Þeir áttu notalega stund saman yfir góðum veitingum, tónlist, söng og upplestri.

Reynir Guðsteinsson fyrrum stjórnarmaður og Laufey Ólafsdóttir í verkefninu Föt sem framlag fengu viðurkenningu frá deildinni. Reynir var stjórnarmaður í 8 ár og hefur einnig tekið þátt í mörgum öðrum verkefnum eins og heimsóknaþjónustu, Göngum til góðs og öðrum átaksverkefnum. Laufey hefur prjónað fyrir deildina síðan árið 1989 þegar verkefnið Föt sem framlag var sett á fót. Hún er lögblind en prjónar enn um 50 húfur á mánuði sem fara í fatapakka til barna í neyð í Malaví.

Auk þeirra fengu söngvinir í Sunnuhlíð viðurkenningu. Tveir hópar af sjálfboðaliðum sjá um söngstundir á mánudögum og fimmtudögum á hjúkrunarheimilinu og hafa gert í yfir 20 ár. Þeir hafa varla misst úr dag og alltaf verið tilbúnir að aðstoða í viðburðum á heimilinu eins og í kirkjuferð á kirkjudegi aldraðra, haustferðum og á aðventugleði í desember. Á mánudögum sjá Hulda Guðmundsdóttir, Þuríður Egilsdóttir og Sigríður Guðmundsdóttir um sönginn og Tómas Ólason og Hannes Baldursson sjá um undirspil. Á fimmtudögum eru það svo Guðrún Árnadóttir, Guðrún L. Guðmundsdóttir og Bragi Óskarsson sem sjá um söngstund fyrir messu.    

Söngvinirnir í Sunnuhlíð hlutu viðurkenningu fyrir sitt starf í þágu deildarinnar. Að venju var svo boðið upp á fjölbreytta og áhugaverða dagskrá. Fjórir nemendur í Tónlistarskóla Kópavogs spiluðu nokkur lög fyrir gestina, þá komu í heimsókn Sigríður Víðis Jónsdóttir sem las upp úr bók sinni Ríkisfang: Ekkert og sönghópurinn L&B Voices sem söng jólalög. Eftir góða kvöldstund var svo happadrætti og fengu nokkrir heppnir gestir gjafir.

Ísafjarðardeild Rauða krossins sendi öllum sjálfboðaliðum bréf og óskaði þeim til hamingju með daginn. Vakin var athygli á störfum sjálfboðanna í grein í Bæjarins besta.

Hafnarfjarðardeild bauð sjálfboðaliðum sínum í samsæti í Rauðakrosshúsinu. 32 sjálfboðaliðar mættu. Tveir rithöfundar lásu upp úr verkum sínum; Sigríður Víðis las úr bók sinni Ríkisfang: Ekkert og Ragnheiður Gestsdóttir las upp úr bókinni Í gegnum glervegginn. Tveir strákar, Markús og Bjarni spiluðu á hljóðfæri. Boðið var upp á kvöldverð.

Kjósarsýsludeild bauð sjálfboðaliðum sínum upp á aðventusúpu í Rauðakrosshúsinu sunnudaginn 4. desember.