Prjónahópur í menningarferð

17. okt. 2008

Prjónahópur Reykjavíkurdeildar Rauða krossins fór í menningarferð í Gerðasal sl. fimmtudag.  Farið var á sýningu sem lýsir þjóðarsál og menningu Ekvador. Var gerður góður rómur af fallegum teppum, myndum og ekki síst skartgripum sem hópurinn dvaldi lengi við. Þegar prjónahópurinn gat loks dregið sig frá sýningunni, lá leiðin á kaffihús þar sem góðra veitinga var notið áður en haldið var heim.

Sjálfboðamiðlun Reykjavíkurdeildar hefur staðið fyrir opnu húsi á fimmtudögum kl. 13:30-16:00 fyrir fólk sem vill leggja góðu málefni lið með því að gefa vinnu sína við að prjóna eða hekla. Garn, ull og prjónar eru á staðnum. Það sem unnið er, er ýmist sent til fólks í neyð erlendis eða selt í verslunum Rauða krossins.

Prjónafatnaður hefur einkum verið sendur til Rauða kross deilda í Búlgaríu, Pétursborgar og Litháen. Vorið 2004 fór einnig stór sending til barnaspítala Indira Ghandi í Kabul, Afganistan.

Allir sem kunna að prjóna eða hekla og hafa áhuga á að láta gott af sér leiða eru velkomnir í hópinn og er bent á að hafa samband við Ernu í Sjálfboðamiðlun í síma 545-0408 eða í gegnum netfangið ernal@redcross.is