Hjálparsími Rauða krossins 1717 fær styrk frá Capacent

20. jan. 2009

Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands tók í gær við styrk frá Capacent að fjárhæð 500.000 krónur sem verður varið til reksturs á Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Styrkurinn er veittur í þakklætisskyni við þátttakendur í símakönnun á vegum Capacent Gallup síðasta desember. Þar runnu 1.000 krónur af hverju samtali til styrktar Hjálparsímanum en könnunin, sem var alþjóðleg, snérist um efnahagsástandið og hagi landsmanna.

„Könnunin var í lengri kantinum miðað við okkar kannanir þannig að við vildum hvetja fólk til að svara og styrkja um leið þetta góða málefni,” segir Einar Einarsson, framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Capacent.  „Styrkurinn er þannig frá fólkinu í landinu í gegnum þátttakendur könnunarinnar."

„Við vissum líka að símtölum í Hjálparsímann hefur fjölgað umtalsvert á síðustu mánuðum og því kæmi þetta sér afar vel,” bætir hann við.

Á árinu 2008 tóku sjálfboðaliðar og starfsmenn Hjálparsímans á móti 21.627 símtölum af ýmsum toga. Símtöl af félagslegum toga sóttu á í október og nóvember þegar kreppan skall á.

Hjálparsími Rauða krossins er fyrir alla þá sem þurfa að ræða málin - einkunnarorð 1717 eru hlutleysi, skilningur, nafnleysi og trúnaður. Síminn er opinn allan sólahringinn allan ársins hring, gjaldfrjáls og það birtist ekki á símareikningnum að hringt hafi verið í 1717.