Fjölbreytt námskeið eru boði hjá Rauða krossinum

23. jan. 2009

Rauði krossinn stendur fyrir fjölda námskeiða á ári hverju. Námskeiðin eru fyrir sjálfboðaliða félagsins og alla aðra áhugasama.

Skyndihjálp og sálrænn stuðningur eru hagnýt námskeið sem sniðin eru að þörfum almennings og hópa, fagaðila og fyrirtækja. Á námskeiðunum er lögð áhersla á að kenna rétt viðbrögð í neyð og einfaldar aðferðir skyndihjálpar og sálræns stuðnings. Slys á börnum er vinsælt námskeið fyrir foreldra og aðra sem umgangast ung börn.

Grunnnámskeið Rauða krossins er ætlað öllum sem starfa fyrir Rauða krossinn og öðru áhugafólki. Um er að ræða þriggja tíma námskeið þar sem farið er yfir upphaf Rauða krossins og ágrip úr sögu hreyfingarinnar sem og verkefni félagsins.

Heimsóknavinir er eitt útbreiddasta verkefni Rauða krossins. Áður en heimsóknavinir taka til starfa sitja þeir námskeið þar sem farið er yfir leiðbeiningar og reglur sem þarf að hafa í huga í heimsóknum. Heimsóknir eru að jafnaði einu sinni í viku í eina klukkustund.

Mikilvægt verkefni innan Rauða krossins er neyðarvarnir. Fjöldi sjálfboðaliða tekur þátt í fjöldahjálp og félagslegri aðstoð á neyðarstundu. Námskeiðin eru fyrir þá sem áhuga hafa og vilja starfa með Rauða krossinum að þessum málum.

Garðabæjardeild Rauða krossins stendur fyrir tveimur verkefnum fyrir innflytjendur; félagsleiðbeinandi barna af erlendum uppruna er fyrir þá sem vilja aðstoða börn við að kynnast samfélaginu og vera virk í því og félagsvinir – mentor er málið er gefandi verkefni fyrir konur sem hafa áhuga á að kynnast menningu annars lands og um leið opna dyr að samfélaginu fyrir erlendar konur. Námskeið fyrir verðandi sjálfboðaliða fer fram hjá deildinni.

Námskeiðið Viðhorf og virðing er ætlað öllum þeim sem vilja vinna gegn fordómum og mismunun gagnvart minnihlutahópum, þar sem mannúð, hlutleysi og óhlutdrægni eru höfð að leiðarljósi.

Á næstu dögum bætast við upplýsingar um námskeiðið Börn og umhverfi fyrir börn 11 ára og eldri sem gæta yngri barna. Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Einnig er lögð áhersla á slysavarnir og farið yfir algengar slysahættur í umhverfinu.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni og einnig er hægt að skrá sig með því að smella hér.

Þeir sem hafa áhuga á að gerast sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum geta skráð sig hér.