Rauði krossinn opnar Vinanet til að rjúfa einangrun ungmenna

28. jan. 2009

Næstkomandi sunnudag verður Vinanet, sem er nýtt samstarfsverkefni Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, formlega opnað.

Vinanet er hugsað sem spjall fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem af einhverjum ástæðum hefur einangrað sig frá samfélaginu. Ætlunin er að ná til þessa hóps með aðstoð Internetsins en það er sá vettvangur þar sem auðvelt er að ná til sem flestra. Á Vinaneti getur fólk rætt saman á uppbyggilegan hátt um hin ýmsu málefni. Einu sinni í mánuði verða hittingar meðal þeirra sem eru á spjallinu ásamt sjálfboðaliðum og verður ýmislegt skemmtilegt gert eins og fara saman í bíó, í keilu, á skauta, á kaffihús og svo framvegis.

Hlutverk sjálfboðaliða er að halda utan um spjallið og sjá til þess að notendur spjalli saman á jákvæðum nótum ásamt því að ýta undir að allir taki virkan þátt – bæði í spjallinu og í mánaðarlegum hittingum utan netheima. Sjálfboðaliðar verkefnisins hafa setið grunnnámskeið Vinanets og fengið þjálfun í viðtalstækni. Spjallið er unnið að fyrirmynd Rauða krossins í Danmörku sem heldur úti verkefni sem kallast Ensom Ung en þar hefur svona spjall verið starfrækt síðan 2001 og telur nú yfir 150.000 skráða notendur.

Opnunarhátíðin er sunnudaginn 1. febrúar 2009, og hefst kl. 17:30 í salnum á 5. hæð R-RKÍ að Laugavegi 120 með ræðuhöldum verkefnastjóra og samstarfsaðilum Vinanets. Spjallið verður svo opnað í fyrsta sinn kl. 18:00 og verður framvegis opið alla sunnudaga og þriðjudaga milli 18:00-21:00, sjá nánar www.vinanet.is.

Við bjóðum þig hjartanlega velkomin/nn að verða vitni að þessum merka áfanga og þiggja léttar veitingar í tilefni dagsins.