Kópavogsdeildin er virkur þátttakandi í alþjóðastarfi Rauða krossins

3. mar. 2009

Markmið deildarinnar er að taka þátt í alþjóðlegri neyðaraðstoð á vegum Rauða kross Íslands og vera virkur þátttakandi í alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Einn liður í þessu starfi er verkefnið Föt sem framlag en vel yfir 50 sjálfboðaliðar störfuðu við það árið 2008 eins og kemur fram í ársskýrslu deildarinnar sem var kynnt á aðalfundi í síðustu viku. Sjálfboðaliðarnir útbúa fatapakka fyrir börn í neyð og eru þeir sendir til Malaví í Afríku. Alls sendu þeir frá sér 640 pakka og yfir 100 teppi á síðasta ári. Þá lögðu gestir í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, verkefninu lið með handavinnu sem fer fram í athvarfinu. Konur á hjúkrunarheimilinu í Sunnuhlíð lögðu einnig sitt af mörkum með því að afhenda deildinni teppi og aðrar prjónavörur.

Sjálfboðaliðum fjölgaði verulega í verkefninu og má þakka það aukinni umfjöllun og opnu húsi í sjálfboðamiðstöðinni síðasta miðvikudag hvers mánaðar en á þessar samverustundir mættu að jafnaði 25-30 konur hverju sinni eins og kemur fram í ársskýrslunni.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.