Eldhugar hitta palestínska unglinga á Akranesi

9. mar. 2009

Það var sannkölluð fjölmenningarstemning á fundi Eldhuga á fimmtudaginn er þeir fóru saman ásamt sjálfboðaliðum að heimsækja Rauða krossinn á Akranesi. Þar fékk hópurinn frábærar móttökur. Nokkrir unglingar úr hópi palestínskra flóttamanna sem þar búa, ásamt sjálfboðaliðum og starfsfólki  deildarinnar, biðu hópsins með veitingar. Auk þess sem hann fékk fræðslu um móttöku flóttamanna til nýrra heimkynna. Þar kom fram hvernig Rauði krossinn á Akranesi stóð að móttöku flóttamannanna frá Palestínu sem fluttu þangað í fyrrahaust. Sagt var frá því hvernig deildin og bæjarbúar stuðluðu að því að fólkinu liði sem best og hvernig stuðningsfjölskyldur á Akranesi hafa stutt við hópinn og hjálpað þeim við að aðlagast lífi í nýju landi.

Gaman var að sjá hversu vel hóparnir náðu saman og sumir úr hópi Eldhuga fengu þarna kjörið tækifæri til þess að tala móðurmál sitt við jafnaldra. Eldhugar munu síðar bjóða unglingunum af Akranesi til sín í heimsókn og það verður eflaust glatt á hjalla við þá endurfundi.
 

 

 

 

Eldhugi spjallar við flóttamenn frá Palestínu.