Nemendur Versló áhugasamir um Vinanetið og Hjálparsíma Rauða krossins 1717

27. mar. 2009

Starfsmenn Reykjavíkurdeildar Rauða krossins heimsóttu alla þriðju bekki Verslunarskóla Íslands og kynntu fyrir nemendum verkefni ungmennahreyfingar deildarinnar, Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og Vinanetið. Móttökurnar voru góðar og nemendur Verslunarskóla Íslands áhugasamir um verkefni Rauða krossins.

Vinanet er spjall fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem af einhverjum ástæðum hefur einangrast frá samfélaginu. Á Vinaneti getur fólk rætt saman á uppbyggilegan hátt um hin ýmsu málefni. Einu sinni í mánuði stendur þeim sem spjalla saman á netinu til boða að hittast utan tölvuheima ásamt sjálfboðaliðum Rauða krossins þar sem ýmislegt skemmtilegt er gert  eins og fara saman í bíó, í keilu, á skauta, á kaffihús og svo framvegis. Hlutverk sjálfboðaliða er að halda utan um spjallið og sjá til þess að notendur spjalli saman á jákvæðum nótum ásamt því að ýta undir að allir taki virkan þátt – bæði í spjallinu og í mánaðarlegum hittingum utan netheima. Sjálfboðaliðar verkefnisins hafa setið grunnnámskeið Vinanets og fengið þjálfun í viðtalstækni.

Vinanet verður opið alla sunnudaga og þriðjudaga milli kl. 18:00-21:00 á slóðinni www.vinanet.is. Ungt fólk á aldrinum 16-25 er hvatt til þess að skoða síðuna, skrá sig og taka þátt í spjallinu. Spjallið er unnið eftir danskri fyrirmynd sem kallast Ensom Ung en þar hefur svona spjall verið starfrækt síðan 2001 og telur nú yfir 150.000 skráða notendur. Vinanet er samstarfsverkefni Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins. Verkefnið hefur farið vel af stað og eru skráðir notendur vel yfir 70 talsins.

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er gjaldfrjáls sími sem er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna kvíða, þunglyndis, depurðar, efnahagsáhyggja eða jafnvel sjálfsvígshugsana. Hjálparsíminn 1717 gegnir því hlutverki að veita ráðgjöf til fólks á öllum aldri sem óskar eftir stuðningi. Starfsmenn og sjálfboðaliðar 1717 veita upplýsingar um hvar megi leita frekari úrræða ásamt því að veita sálrænan stuðning. Meðal hlutverka Hjálparsímans er einnig að vera til staðar fyrir þá sem eru einmana og einangraðir og þurfa upplýsingar um samfélagsleg úrræði. Hjá Hjálparsímanum starfa tæplega 100 sjálfboðaliðar auk starfsmanna. Allir hafa hlotið þjálfun í virkri hlustun, sálrænum stuðningi, skyndihjálp, viðtalstækni, og fleira.

Berglind Rós Karlsdóttir forstöðukona URKÍ-R, Fjóla Einarsdóttir verkefnisstjóri 1717 og Garðar Örn Þórsson verkefnastjóri Vinanets sáu um kynningarnar í Verslunarskólanum og þeir sem vilja fá nánari upplýsingar um verkefnin geta snúið sér til þeirra í síma 545 0400.