Frábær ferð í Bláa Lónið og Svartsengi

30. jún. 2008

Síðastliðinn miðvikudag fóru sjálfboðaliðar Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins og hælisleitendur á Íslandi í skemmtilega sumarferð í Bláa Lónið og Svartsengi.

Ferðin var farin í blíðskaparveðri og ríkti bæði mikil eftirvænting og kátína meðal ferðalanga. Morguninn hófst með boðsferð í Bláa Lónið þar sem menn nutu afslappandi baðsins á rólegum morgni. Endurnærður hélt hópurinn svo yfir í Svartsengi þar sem tekið var á móti hópnum með veitingum í Eldborg og orkuverin skoðuð eftir að menn höfðu fengið létta hressingu. Skoðunarferðin endaði í Eldvörpum þar sem blásið var kröftulega úr einni af borholum Hitaveitunnar.

Bæði Bláa Lónið og Hitaveita Suðurnesja buðu hópnum til sín án endurgjalds. Hafnarfjarðardeild þakkar þessum fyrirtækjum fyrir góðvild í garð hælisleitenda og sjálfboðaliða Rauða krossins.

Sjálfboðaliðar á vegum Hafnarfjarðardeildar Rauða kross Íslands heimsækja hælisleitendur einu sinni í viku. Markmið heimsóknanna eru að rjúfa félagslega einangrun og stytta hælisleitendum stundir á meðan þeir bíða málsmeðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Jafnframt sinnir Rauði krossinn málsvarastarfi og réttindagæslu fyrir hælisleitendur hér á landi. Rauði kross Íslands er fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.