Nýr starfsmaður deildarinnar

20. apr. 2009

Kjósarsýsludeild hefur ráðið Erlu Traustadóttur í 50% stöðu. Í kjölfarið mun sjálfboðaliðamiðstöðin vera opin tvo daga í viku, á þriðju-og fimmtudögum kl. 10 – 13. Í boði verður ýmis konar fræðsla og félagsstarf sem er öllum opið og eru Mosfellingar hvattir til að koma og kynna sér það sem er í boði.

Erla segir deildina ætla að bjóða upp á röð spennandi námskeiða og kynninga auk samveru fyrir áhugasama.  Viðburðirnir verða ókeypis og öllum opnir, ekki síst fólki í atvinnuleit og þeim sem hafa þurft að minnka við sig vinnu.  Fyrstu dagskrárliðirnir verða kennsla á GPS tæki þann 29. apríl og námskeið í ræktun kryddjurta þann 5. maí.  Fjölbreytt dagskrá mun svo fylgja í kjölfarið.

Öflugur hópur sjálfboðaliða Rauða krossins úr Mosfellsbænum starfar nú við ýmis fjölbreytt verkefni.  Með opnun sjálfboðaliðamiðstöðvarinnar gefst fleirum færi á kynna sér þau verkefni sem í boði eru og nýta krafta sína þar.  Dæmi um verkefni sem Kjósarsýsludeildinn kemur að eru:  Heimsóknarvinir, þar sem sjálfboðaliði heimsækir einstaklinga á heimilum, stofnunum eða dvalarheimilum til að rjúfa félagslega einangrun þeirra, 1717 – hjálparsíminn og aðstoð við Foreldrarölt í grunnskólum Mosfellsbæjar, svo fátt eitt sé nefnt.  Í undirbúningi eru verkefni eins og:  Föt sem framlag þar sem hópar prjóna ungbarnaföt sem send eru til Afríku eða föt til sölu í Rauðakross búðunum og Aðstoð við heimanám fyrir nemendur af erlendum uppruna.  Ýmis tilfallandi styttri verkefni eru líka í boði svo áhugasamir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Mosfellingar eru hvattir til að fylgjast með dagskránni framundan á heimasíðu Kjósarsýsludeildar, www.redcross.is.  Skráning á námskeiðin og nánari upplýsingar um starfsemi deildarinnar í síma 898 6065 og netfanginu
kjosarsysla@redcross.is.