Vel heppnuð dagsferð með mentorum og mentee

13. maí 2009

Garðabæjardeild Rauða krossins efndi til dagsferðar með mentee og mentorum á laugardaginn. Ferðin var hugsuð sem vorglaðningur og einnig til að hitta fólk í öðru sveitarfélagi sem er með sama bakgrunn. Því var skipulögð heimsókn til Rauða kross deildarinnar á Akranesi en þar eru unnið að málefnum erlendra kvenna.

Keyrt var um Hvalfjörð þar sem stoppað var nokkrum sinnum, fallegir staðir skoðaðir og saga hvalstöðvarinnar og verkun hvals í áratugi rifjuð upp. Á íslensku baðströndinni á Langasandi við Akranes braust út gleði og frelsistilfinning einkum hjá börnunum, sem hlupu um og snertu sjóinn.

Síðan lá leiðin í kaffihúsið Skrúðgarðinn þar sem fulltrúar Rauða krossins biðu hópsins og buðu upp á veitingar og farið var í leiki sem tengdu fólkið saman.

Að lokum var haldið á safnið að Görðum þar sem gefin var innsýn í gamla tímann og voru mentorar og starfsmenn verkefnisins duglegir við að útskýra hvernig tæki og tól voru notuð. Einnig var steina- og íþróttasafnið skoðað og ungu strákarnir voru sérlega áhugasamir við að kynna sér hvernig lega og uppgröftur Hvalfjarðargangna er kynnt á safninu.

Að lokum lá leiðin um Hvalfjarðargöng til Reykjavíkur þar sem þreyttir og glaðir ferðalangar luku ferðinni með gleði í hjarta.

Verkefnið félagsvinur – mentor er málið byggir á nokkurs konar námssambandi milli tveggja kvenna sem báðar njóta góðs af, önnur er frá heimalandinu (mentor) og hin af erlendum uppruna (mentee). Þannig eru tengdar saman innlendar konur og konur af erlendum uppruna sem geta skipst á upplýsingum og þekkingu á jafningjagrundvelli þar sem unnið er að því að beisla þann óvirkjaða mannauð sem felst í menntun, þekkingu og reynslu hjá konum af erlendum uppruna, bæði þeim og íslensku samfélagi til framdráttar.

Nánari upplýsingar um verkefnið er að fá hjá Garðabæjardeild Rauða krossins í síma 565 9494 eða á netfangið asa@redcross.is.