Vetrarstarfi Eldhuga lýkur senn

13. maí 2009

Nú fer að líða að lokum vetrarstarfsins hjá Eldhugum en þeir hafa hist kl.17.30 alla fimmtudaga í vetur. Síðasta samvera Eldhuga verður þann 14. maí en þá fara þeir í heimsókn til Reykjavíkurdeildar. Þar verður haldin sameiginleg grillveisla og skemmtun fyrir 13-16 ára unglinga í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu. Eldhugar munu þar fá tækifæri til þess að kynnast og eiga góða stund saman með öðrum unglingum. Auk þess munu þeir fá að sjá hvað önnur ungmenni innan Rauða krossins hafa verið að gera í vetur en hver deild mun vera með myndasýningu frá sínu vetrarstarfi.

Í myndasýningu Eldhuga ber að líta margar skemmtilegar myndir enda margt búið að vera á döfinni í vetur. Eldhugar hafa til að mynda búið til brjóstsykur, tekið þátt í handverksmarkaði, fengið alnæmisfræðslu, margs konar fjölmenningarfræðslu, heimsótt palestínsk ungmenni á Akranesi, hannað sína eigin stuttermaboli, farið í keilu, haldið ljósmyndakeppni og margt fleira. Þá verða einnig myndir frá kaffihúsaferð Eldhuga þar sem leiklistarnemi kenndi þeim meðal annars að „joggla”.

Lokahnykkurinn í vetrarstarfi Eldhuga verður síðan fimmtudaginn 21. maí en þá verður farið í árlega vorferð sem farin er með öll þau börn og ungmenni sem taka þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu.

Frekari upplýsingar um starf Eldhuga er að finna hér.