Hátt í eitt hundrað námsmenn nýttu sér lesaðstöðu og námsaðstoð

25. maí 2009

Kópavogsdeild Rauða krossins bauð upp á ókeypis námsaðstoð fyrir fólk á framhaldsskólaaldri 27. apríl til 13. maí í samstarfi við Molann, menningar- og tómstundahús Kópavogs að Hábraut 2.

Í Molanum var opin lesaðstaða fyrir nemendur alla virka daga en tvisvar í viku voru sjálfboðaliðar frá Kópavogsdeild, sem búa yfir góðri þekkingu í helstu námsfögunum, á staðnum. Tilgangur verkefnisins var að sporna gegn brottfalli nemenda úr námi með því að veita þeim sérstaka aðstoð yfir prófatímann.

Verkefnið var unnið í samráði við námsráðgjafa Menntaskólans í Kópavogi, Menntaskólans við Hamrahlíð og Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Auk þess var námsaðstoðin kynnt sérstaklega fyrir íslenskum sem og erlendum nemendum á höfuðborgarsvæðinu með ýmsum hætti.

Námsaðstoðin hlaut mjög góðar móttökur. Mæting nemenda í lesverið jókst til muna og hátt í eitt hundrað nemendur nýttu sér aðstöðuna og leiðsögn sjálfboðaliðanna með einum eða öðrum hætti. Alls gáfu átta sjálfboðaliðar vinnu sína.

Kópavogsdeild sér fram á áframhald þessa verkefnis næsta vetur og þakkar hér með sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum kærlega fyrir þeirra framlag.