Starfið á árinu 2008

12. jún. 2009

Sjálfboðaliðar í sex deildum á höfuðborgarsvæði starfa saman á svæðisvísu. Deildirnar eru Álftanesdeild, Garðabæjardeild , Hafnarfjarðardeild, Kjósarsýsludeild, Kópavogsdeild og Reykjavíkurdeild.

Í svæðisráði deilda á höfuðborgarsvæði eru fulltrúar allra deildanna þar auk fulltrúa URKÍ sem situr fundi og hefur málfrelsi og tillögurétt.

Einar Guðbjartsson fulltrúi Kjósarsýsludeildar lét af formennsku svæðisráðs á svæðisfundi sem haldinn var 14. október 2008 og við tók Katrín Matthíasdóttir fulltrúi Garðabæjardeildar. Svæðisráð fundar fyrsta miðvikudag hvers mánaðar. Svæðisskrifstofa Rauða kross Íslands á höfuðborgarsvæði er staðsett í húsnæði Hafnarfjarðardeildar að Strandgötu 24.

Sparifatasöfnun
Fatasöfnun Rauða krossins ásamt svæðisráði deilda á höfuðborgarsvæðinu skipulögðu sérstakt átak til söfnunar sparifata í nóvember. Markmiðið var að safna sparifatnaði sem nýttist til úthlutunar fyrir jólin. Formaður svæðisráðs sá um stjórn verkefnisins. Safnað var á sjö stöðum á höfuðborgarsvæðinu, hjá hverri deild og í húsnæði Vífilfells, en fyrirtækið tók virkan þátt í söfnuninni með því að bjóða fram húsnæði, sjálfboðaliða og greiða auglýsingar. Söfnunin gekk ágætlega, mest kom inn af karlmanna- og kvenfatnaði.

Fræðsla í skólum á höfuðborgarsvæðinu
Líkt og undanfarin ár bjóða sjálfboðaliðar og starfsfólk deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu grunnskólum á svæðinu upp á fræðslu fyrir 8. bekki. Lögð er áhersla á að fræða nemendur um áhersluverkefni Rauða krossins ásamt því að kynna þeim verkefni á vegum deilda. Lögð er áhersla á þau verkefni sem nemendur geta tekið þátt í. Nemendur í tæplega 30 grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu fengu fræðslu um Rauða krossinn á árinu.

Sumarbúðir og ungmennamál
Svæðisráð deilda á höfuðborgarsvæðinu veitti sumarbúðunum á Löngumýri og í Stykkishólmi fjárstyrk en allt að 60% þátttakenda í búðunum voru af höfuðborgarsvæðinu. Svæðissjóður greiddi kostnað vegna vorferðar ungmenna í deildunum. Í ár var farið á Drauga- og tröllasetrið á Stokkseyri og síðan grillað í Hveragerði. Svæðisráð veitti fjárstyrk til verkefnisins „Á flótta.“  Sjötíu ungmenni tóku þátt í leiknum og komu þau frá öllum deildum á höfuðborgarsvæðinu.

Geðheilsa og athvörf Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir
Tveir fyrirlestrar voru haldnir í athvörfum fólks með geðraskanir og sóttu þá aðallega sjálfboðaliðar og starfsfólk athvarfanna þriggja sem eru á höfuðborgarsvæðinu; Vinjar, Lækjar og Dvalar. Svæðisráð veitti Læk fjárstyrk fyrir myndlistarnámskeiði og Hafnarfjaðradeild veitti Læk fjárstyrk sem nam dagpeningi sjálfboðaliða á vegum AUS sem starfaði í athvarfinu.

Námskeið
Sex grunnnámskeið um Rauða krossinn voru haldin á starfsárinu. Tvær auglýsingar voru birtar í dagblöðum til að kynna námskeið á vegum deilda og svæðasamstarfsins.

Göngum til góðs
Sjálfboðaliðar í öllum deildum á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs í október. Söfnunin sjálf gekk ágætlega en hins vegar gekk erfiðlega að fá sjálfboðaliða til að ganga á söfnunardag og var því ekki hægt að ganga eins margar götur og í fyrri söfnunum.

Viðbrögð í kjölfar bankahrunsins í október
Deildirnar á höfuðborgarsvæðinu brugðust skjótt við fréttum um fall bankanna í október og yfirvofandi efnahagshrun. Deildirnar hófu samvinnu við sveitarfélög og aðila innan sveitarfélaganna til að undirbúa viðbrögð við ástandinu. Margar deildanna buðu fljótlega upp á námskeið í sálrænum stuðningi og opnuðu hús sín. Deildirnar á höfuðborgarsvæðinu funduðu mánaðarlega með landsskrifstofu til að ræða þær aðgerðir sem hver deild vann að og til að skiptast á hugmyndum.

Neyðarvarnir
Fulltrúar allra sex deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu sitja í neyðarnefnd höfuðborgarsvæðisins. Formaður nefndarinnar er Einar Rúnar Axelsson. Helstu verkefni neyðarnefndarinnar eru að sjá til þess að neyðarvarnaráætlun höfuðborgarsvæðisins sé uppfærð og að fjöldahjálparstjórar séu tilbúnir við útkall.

Eitt fjöldahjálparstjóranámskeið var haldið á árinu og fræðslukvöld fyrir fjöldahjálparstjóra á svæðinu. Nefndin stóð fyrir fjöldahjálparæfingu í Menntaskólanum við Hamrahlíð í apríl og fjöldahjálparstjórar tóku þátt í flugverndaræfingu í nóvember.
 
Fjöldahjálparstjórar höfuðborgarsvæðisins voru kallaðir út í kjölfar jarðskjálftanna á Suðurlandi og stóðu margir þeirra vaktina í nokkurn tíma. Jafnframt tóku félagar í Viðbragðshópi höfuðborgarsvæðisins þátt í að veita sálrænan stuðning í viðtölum sem boðið var upp á í þjónustumiðstöðvunum í Hveragerði og Selfossi.

Viðbragðshópur höfuðborgarsvæðisins sem starfar utan almannavarnaástands var kallaður út 10 sinnum á árinu, nokkrum sinnum vegna bruna, einu sinni vegna dauðaslyss í göngum Hellisheiðarvirkjunar og tvisvar vegna rútuslysa. Haldið var námskeið fyrir nýja félaga í viðbragðshópi og í kjölfar þess var æfing fyrir nýja og gamla félaga í hópnum. Viðbragðshópurinn fór nokkrum sinnum í viðbragðsstöðu vegna hugsanlegrar rýmingar vegna ólöglegs húsnæðis en aldrei kom til þess að hópurinn færi af stað.

Á aðalfundi Rauða kross Íslands hlaut Viðbragðshópurinn viðurkenningu fyrir vel unnin störf og gott verkefni.

Neyðarnefndin á áheyrnarfulltrúa í almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins og jafnframt sæti í aðgerðarstjórn almannavarna á höfuðborgarsvæðinu.