Lífleg starfsemi í Austurbæjarbíói, Húsi Unga Fólksins

24. júl. 2009

Húsnæði Austurbæjarbíós hefur tekið miklum breytingum frá því verkefnið Austurbæjarbíó, Hús Unga Fólksins var formlega opnað í byrjun júní. Starfsemin fór rólega af stað en nú starfa þar 70 til 80 einstaklingar að fjölbreyttum verkefnum. Mikið líf er alla daga í Austurbæjarbíói og er rýmið mjög vel nýtt.

Hús Unga Fólksins er opið alla virka daga frá kl. 10 til 22. Þar er rekið lítið kaffihús sem bíður þátttakendum og gestum uppá frítt kaffi en einnig er boðið uppá gæðakaffi  og vöfflur gegn vægu gjaldi. Verkefnið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16 til 25 ára og eru allir velkomnir þangað til að spjalla, leita ráða um útfærslu hugmynda sinna, taka þátt í „endurbyggingu“ Austurbæjarbíós eða til að nýta sér þá fjölbreyttu afþreyingu sem þar er að finna.

Hóparnir sem starfa í Austurbæjarbíói hafa sett mark sitt á húsnæðið svo um munar. Fyrst vikurnar tóku hóparnir þátt í að hreinsa til og standsetja þá aðstöðu sem þeim hafði verið úthlutað og hafa mörg skemmtileg rými verið útbúin. Þá hafa ungmennin unnið mikið verk í að gera sameiginlega aðstöðu líflega og þægilega. Mest áberandi í daglegri starfsemi Austurbæjarbíós er myndlistarstarfsemi ýmiskonar en einnig eru starfandi leiklistar-, kvikmyndagerðar- og tónlistarhópar.

Einnig eru í boði fjölbreytt námskeið, tónleikar eru í hverri viku og ræðukeppni hefur verið í gangi vikulega í sumar. Allar upplýsingar um dagskrá Austurbæjarbíós má nálgast á www.austurbaejarbio.is 

Þrír sjóðir hafa verið stofnaðir sem þátttakendur geta sótt í um styrki til verkefna. Lýðheilsustöð býður styrki til verkefna sem hafa forvarnargildi (sjá á www.lydheilsustod.is ), Reykjavíkurborg bíður styrki til verkefnavinnu (upplýsingar í Austurbæjarbíói) og einnig er hægt að sækja um hráefnisstyrk til verkefnastjórans í Austurbæjarbíói.

Hluti starfseminnar sem í boði er í Austurbæjarbíói eru verklegar framkvæmdir við viðhald og lagfæringu húsnæðisins. Stefnt er að því að koma Austurbæjarbíói í sem upprunalegasta horf en verulegar breytingar hafa verið framkvæmdar á húsnæðinu í gegnum tíðina.

Austurbæjarbíó, Hús Unga Fólksins, er samstarfsverkefni Rauða krossins í Reykjavík, Hins Hússins, Lýðheilsustöðvar og Samfélagsins Frumkvæði til þriggja mánaða. Ráðin var verkefnastjóri fyrir verkefnið sem hefur yfirumsjón með húsnæðinu og einn iðnaðarmaður hefur verið ráðinn til að hafa yfirumsjón með þeim verklegu framkvæmdum sem ráðist verður í.

Nánari upplýsingar um Austurbæjarbíó, Hús Unga Fólksins, veita:
Berglind Rós Karlsdóttir, forstöðukona URKÍ-R í síma 545-0407  berglind@redcross.is
Þór Gíslason, verkefnastjóri upplýsingamála í síma 545-0406  thorgisla@redcross.is
Agnar Jón Egilsson, verkefnastjóri Austurbæjarbíós í síma 618-6706 agnar@frumkvaedi.is