Hlý og falleg föt fyrir neyðaraðstoð í Hvíta Rússlandi

26. jan. 2012

Það er alltaf jafn gaman þegar sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag koma saman og pakka fallegu fötunum sem þeir hafa saumað, prjónað eða heklað.  Í Kjósarsýsludeild Rauða krossins var í  gær pakkað fyrir 0-12 mánaða börn í Hvíta Rússlandi, en þar er mikil þörf fyrir hlýjan og góðan fatnað enda mikil fátækt í landinu og vetrarhörkur miklar.

28 pakkar voru fullkláraðir eftir daginn, en 20 aukapakkar bíða þess að fá sokkapar eða hlýja peysu og verða þá sendir af stað.

Ungbarnapakkarnir eru staðlaðir og sendir börnum og fjölskyldum í neyð.  Í hverjum pakka eru 2 peysur, 2 samfellur, 4 taubleiur, húfa, teppi, handklæði, 2 sokkapör og buxur.

Einnig eru útbúnir staðlaðir pakkar fyrir 2-12 ára börn í Hvíta Rússlandi. Í þessum pökkum eru buxur, stuttermabolur, peysa, húfa, sokkar og vettlingar.

Sjálfboðaliðar í verkefninu hittast í Þverholti 7 í Mosfellsbæ alla miðvikudaga kl. 13-16.  Prjónar og garn eru á staðnum, en einnig er velkomið að taka með sér eigin prjónadót. Rjúkandi kaffi á könnunni og með því.

Hér má sjá nokkur sýnishorn af verkum hópsins

Hér má sjá myndband frá afhendingu 2000 ungbarnapakka til Hvíta Rússlands árið 2009

Hér má sjá annað myndband frá afhendingu ungbarnapakka til Hvíta Rússlands