Svæðisfundur á höfuðborgarsvæði

12. okt. 2009

Fjölsóttur svæðisfundur deilda á höfuðborgarsvæði var haldinn þann 7. október í húsnæði Kópavogsdeildar.

Katrín Matthíasdóttir formaður svæðisráðs fór yfir skýrslu svæðisráðs. Starfið var fjölbreytt síðasta starfsár. Meðal verkefna má nefna grunnnámskeið, vorferð ungmennahópa og neyðarnefnd. Þá kynnti Katrín nokkur ný verkefni. Þar ber hæst ráðning starfsmanns sem á að sjá um kynningar fyrir athvörfin þrjú, Dvöl, Læk og Vin. Jafnframt kynnti hún nýja hugmynd um að deildir munu bjóða upp á starfsnám.

Garðar Guðjónsson formaður Kópavogsdeildar og fulltrúi í svæðisráði bar fram tillögu á fundinum fyrir hönd Kópavogsdeildar. Hún gekk út á að svæðisfundur myndi fela svæðisráði að kanna kosti þess og galla að stofnaður yrði skyndihjálparhópur á svæðisvísu. Hingað til hefur eini slíki hópurinn verið starfræktur á vegum Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildarinnar. Talsverðar umræður spunnust um tillöguna en hún var samþykkt.

Úr svæðisráði gengu Katrín Matthíasdóttir Garðabæjardeild, Unnur Hjálmarsdóttir Reykjavíkurdeild, Helga Einarsdóttir Álftanesdeild, Jóhannes Baldur Guðmundsson Kjósarsýsludeild og Pálína Matthíasdóttir URKÍ. Eru þeim þökkuð góð störf á árinu.

Ný í svæðisráði eru Eyrún Ellý Valsdóttir Garðabæjardeild, Einar Jón Ólafsson Reykjavíkurdeild, Fjóla Ólafsdóttir Álftanesdeild og Ágústa Ósk Aronsdóttir Kjósarsýsludeild. Enn á eftir að tilnefna fulltrúa URKÍ. 

Þau sem sitja áfram í ráðinu eru Garðar Guðjónsson Kópavogsdeild, sem tekur nú við formennsku, og Guðfinna Guðmundsdóttir Hafnarfjarðardeild.