„Ég vildi gjarnan geta gert meira“

21. okt. 2009

„Upphaflega ástæðan fyrir því að ég gerðist sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum var að ég missti vinnuna í vor,“ segir Þórey Valdimarsdóttir sjálfboðaliði í prjónahópi í Kjósarsýsludeild. „Ég varð fyrir miklu áfalli og leið mjög illa lengi á eftir. Það sem mér fannst verst var að mér var einni sagt upp.“

 „Mig langaði mest bara að breiða upp fyrir haus en vissi að ég mátti alls ekki leggjast í einhverja eymd og volæði. Ég hafði séð auglýsingu um prjónaverkefni Rauða krossins og gekk upp í Þverholt 7 þar sem Kjósarsýsludeild Rauða krossins er til húsa. Þar sýndi ég starfsmanni deildarinnar nokkrar barnapeysur sem ég hafði heklað og við ákváðum að setja strax á fót prjónahóp í Mosfellsbæ.“

„Eftir það kom ég í Rauða krossinn í hverri viku með húfur og teppi sem ég hafði heklað. Um leið fékk ég meira garn til að geta prjónað fleiri flíkur. Mikið af efninu sem við notum er afgangsgarn. Við þiggjum allt garn, lopa, heklunálar og prjóna sem fólk vill gefa Rauða krossinum því það er ekki til sá afgangsspotti að hann nýtist ekki einhvern veginn.“

Ungbarnaföt fyrir nauðstadda í Hvíta-Rússlandi
„Hér í Mosfellsbæ erum við alltaf að leita að fleiri konum í prjónahópinn til að búa til barnaföt og teppi. Allir eru velkomnir. Ekki síst vantar konur sem geta tekið að sér að sauma litlar buxur úr afgöngum. Við prjónum og heklum eingöngu teppi og föt fyrir börn. Mest eru þetta húfur, sokkar, peysur, litlar buxur eða nærföt. Sjálf hekla ég mest teppi og peysur,“ segir Þórey og bætir því við að prjónahópurinn kemur saman í húsnæði Rauða krossins í Þverholti 7 á hverjum miðvikudegi milli eitt og þrjú. Allar flíkur sem konurnar prjóna og sauma fara nú til skjólstæðinga Rauða krossins í Hvítarússlandi, en þaðan barst Rauða krossi Íslands beiðni um 2.500 pakka með fötum fyrir ungbörn.

Rauði krossinn bregst við áföllum með ýmsum hætti
Margir Íslendingar glíma við erfið áföll af völdum þeirra efnahagsþrenginga sem þjóðin hefur þurft að þola frá haustinu 2008. Rauði krossinn hefur lagt sérstaka áherslu á að styðja við bakið á því fólki sem misst hefur vinnu sína eða heimili. Meðal sérstakra verkefna til að hjálpa þeim sem eru í erfiðleikum eftir hrunið er Rauðakrosshúsið að Borgartúni 25. Jafnframt stendur Rauði krossinn fyrir sérstakri Rauðakrossviku 12.-17. október þar sem höfuðáhersla er lögð á að kynna viðbrögð félagsins við áföllum og safna sjálfboðaliðum í Liðsauka, sérstakt varalið sem hægt er að kalla út til að bregðast við ýmsum áföllum, allt frá náttúruhamförum til persónubundinna erfiðleika.

„Starfið með Rauða krossinum skipti gríðarlega miklu máli fyrir mig meðan ég var atvinnulaus og er enn mjög mikilvægt þó að ég sé nú í fullri vinnu og hafi minni tíma,“ sagði Þórey. „Í prjónahópnum fékk ég frábæran stuðning til að takast á við erfiðleikana. Það sem þó hefur hjálpað mér mest er að hafa fengið tækifæri til að hjálpa öðrum. Það gefur manni ótrúlegan styrk að finna það að maður geti gert gagn og ég vildi gjarnan geta gert meira.“