Jafningjafræðsla á alþjóðlegum alnæmisdegi

1. des. 2009

Alþjóðlegur baráttudagur gegn alnæmi er í dag 1. desember. Fræðsluhópur Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar hefur af því tilefni sinnt forvarnarfræðslu um alnæmi fyrir alla lífsleikninema Menntaskólans í Kópavogi undanfarna daga og vikur. Auk þess hélt hópurinn fyrirlestur og kynningu á Tyllidögum skólans í haust.

Fræðsluhópur sinnir fræðslu og forvörnum, bæði fyrir jafningja og yngri hópa og vinnur með eitt átaksverkefni á hverri önn. Verkefnið sem varð fyrir valinu í haust var fræðsla um alnæmi og hefur hópurinn leitast við að vekja jafningja sína til umhugsunar. Fræðslan var í formi hlutverkaleiks, auk fyrirlesturs þar sem fjallað var um helstu staðreyndir er varða sjúkdóminn. Fræðsluhópur vann þetta átaksverkefni í samstarfi við HIV–samtök Íslands.

Kópavogsdeild er stolt af þessu framtaki fræðsluhóps og má áætla að hópurinn hafi náð til allt að 150 jafningja með þessum hætti. Sömuleiðis hvetur deildin ungmenni á aldrinum 16-24 ára til að koma og vera með í spennandi ungmennastarfi og láta gott af sér leiða. Innan Plússins er hægt að finna ýmis verkefni við hæfi og hægt er að skrá sig í þau með því að smella hér

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma eða skráð sig hér.