Nemendur í SJÁ 102 fá viðurkenningu fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf

8. des. 2009

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu á dögunum fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf hjá Kópavogsdeild. Nemendurnir voru tuttugu í áfanganum á þessari önn og unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum, sem námsvinir jafningja og í Dvöl. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að sjá um handverksmarkað í sjálfboðamiðstöðinni sem haldinn var þann 14. nóvember síðastliðinn.

Á markaðinum voru seld margs konar handverk sjálfboðaliða deildarinnar, bakkelsi sem nemendur bökuðu sjálfir sem og handverk frá Mósambík en Kópavogsdeildin er í vinadeildasamstarfi með Rauða krossinum í Maputo-héraði þar í landi og styrkir uppbyggingu þeirrar deildar. Að þessu sinni rann allur ágóði markaðarins til neyðaraðstoðar innanlands. Markaðurinn gekk mjög vel og alls söfnuðu MK-nemarnir 440 þúsund krónum.  

Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossinum. Nemendur vinna sjálfboðið starf yfir önnina í samráði við kennara og Kópavogsdeildina. Meðal verkefna í boði eru störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, störf í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn, félagsstarf með 13-16 ára ungmennum af íslenskum og erlendum uppruna og aðstoð við jafningja með það að markmiði að liðsinna við nám og rjúfa félagslega einangrun.